55% þjóðarinnar les 30 mínútur á dag

Þau sem kunna að lesa þurfa aldrei að láta sér …
Þau sem kunna að lesa þurfa aldrei að láta sér leiðast. mbl.is/Styrmir Kári

Þjóðin les eða hlustar að meðaltali á 2,6 bækur á mánuði, samanborið við 2,4 bækur í fyrra. 55% þjóðarinnar ver 30 mínútum eða meira í lestur á dag á meðan 15% ver engum tíma í að lesa eða hlusta á bækur. Skáldsögur eru vinsælasta lesefnið og 60% þjóðarinnar gaf bók á árinu. 56% fá hugmyndir að lesefni frá vinum og ættingjum og 36% af umfjöllun í fjölmiðlum. 31% sagðist ekki hafa lesið neina bók á síðastliðnum 30 dögum, en skilgreining lestrar í könnuninni er lestur hefðbundinna bóka, rafbóka og hlustun á hljóðbækur.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri lestrarkönnun sem Miðstöð íslenskra bókmennta stóð fyrir í haust í samstarfi við sex aðila á bókmenntasviðinu. Rannsóknarfyrirtækið Prósent sá um framkvæmd könnunarinnar, sem fram fór dagana 7. til 21. október 2024. Úrtakið var 2.300 einstaklingar 18 ára og eldri og var svarhlutfallið 50%

Skáldsögur eru vinsælasta lesefni þjóðarinnar.
Skáldsögur eru vinsælasta lesefni þjóðarinnar. Ljósmynd/Colourbox

„Þetta er áttunda árið sem sambærileg könnun er lögð fyrir þjóðina þar sem lestrarhegðun og viðhorf til lestrar og bókmenningar er kannað. Þróunin frá 2017 sýnir meðal annars að lestur þjóðarinnar stendur í stað. Lestrarhegðunin hefur hins vegar breyst þegar horft er til þess hvort lesnar séu hefðbundnar bækur, rafbækur eða hljóðbækur og hvaðan lesendur fá hugmyndir að lesefni,“ segir í tilkynningu frá miðstöðinni. „Niðurstöðurnar sýna að landsmenn hafa áhuga á bóklestri og lestur er almennt mikill í flestum þjóðfélagshópum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert