„Mér var haldið sofandi í níu sólarhringa“

Hagalín Ágúst Jónsson segist sennilega aldrei ná sér að fullu.
Hagalín Ágúst Jónsson segist sennilega aldrei ná sér að fullu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á alþjóðlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa, sem er á morgun, 17. nóvember, er sjónum beint að þeirri hættu sem stafar af því að ökumenn sofni undir stýri. Rannsóknir sýna að svefn og þreyta eru meðal helstu orsaka banaslysa í umferð og áherslumálið því sjálfgefið.

Þetta er til að mynda talin möguleg ástæða tveggja slysa á síðasta ári þar sem fólk lést; bílar sem mættust lentu saman eftir að ökumaður annars þeirra sofnaði. Bæði þessi slys urðu á Vesturlandi; annað á Snæfellsnesi í júlí og hitt í desember á hringveginum nærri Skipanesi í Melasveit. Auk þess slasaðist 21 alvarlega af áðurnefndri ástæðu.

Gerðist allt mjög skyndilega

„Slys eru jafnan þannig að af þeim má ýmsan lærdóm draga,“ segir Hagalín Ágúst Jónsson. Hann var ökumaður annarrar bifreiðarinnar sem lentu í árekstrinum í Melasveit 13. desember í fyrra. Þetta var um klukkan 14.30. Hagalín var þarna með kærustu sinni á norðurleið og skilyrði til aksturs þokkaleg. Þau voru á Volvo 40 og á móti þeim kom smábíll af gerðinni Toyota Yaris, sem skyndilega sveigði til vinstri í veg fyrir þau.

Ákoma á Toyota-bifreiðinni var nánast á öllum framendanum og framendi og vinstri hlið Volvosins stórskemmdust. „Þetta gerðist allt mjög skyndilega. Allt í einu kom bíllinn á móti okkur á öfugum vegarhelmingi svo ég sveigði Volvonum út í kant, sem dugði ekki til. Bílarnir skullu mjög harkalega saman og ég gerði mér strax grein fyrir að eitthvað hræðilegt hafði gerst. Stýrið á bílnum mínum bognaði í vinkil og mælaborðið gekk að brjóstkassanum á mér,“ segir Hagalín, sem hélt meðvitund allan tímann.

Tveimur sekúndum fyrir slysið

Atvik þetta var greint af rannsóknarnefnd umferðarslysa og skýrsla um það birt fyrir nokkrum dögum. Þar segir að á leið Toyota-bifreiðarinnar úr norðri sé mjúk vinstribeygja áður en komið er að löngum beinum legg að gatnamótum við Skipanes.

„Á þeim vegarkafla var Toyota-bifreiðinni ekið yfir miðlínu vegarins, yfir á gagnstæðan vegarhelming, og rákust framhluti Toyota-bifreiðarinnar og vinstri framhluti Volvo-bifreiðarinnar saman. Við áreksturinn snerist Toyota-bifreiðin um 180 gráður og stöðvaðist á nyrðri akreininni. Volvo-fólksbifreiðin kastaðist til hliðar og út fyrir veg við ætlaðan árekstrarstað,“ segir rannsóknanefndin.

Í Toyota-bifreiðinni var ein eldri kona. Hún hlaut fjöláverka í slysinu og lést af völdum þeirra. Báðir bílarnir voru teknir til rannsóknar. Upplýsingar úr loftpúðatölvu Toyotunnar voru greindar og þar kemur fram að tveimur sekúndum fyrir slysið hafi konan sem bílnum ók sýnt viðbrögð við yfirvofandi hættu. Færði fótinn af bensíninngjöf og yfir á hemil, sem þá hafi verið um seinan.

„Sennilegt er að ökumaðurinn hafi ekki verið með athygli við aksturinn, mögulega án meðvitundar eða sofandi í nokkrar sekúndur eftir að hann ók úr beygjunni og inn á beinan kafla vegarins,“ segja rannsakendur.

Björgunarlið og lögregla komu fljótt á vettvang og hófu aðgerðir. Einnig þyrla frá Landhelgisgæslunni, sem fluttu Hagalín Ágúst og Írisi Helenu kærustu hans á sjúkrahús, en þau voru bæði illa slösuð. Hagalín brotnaði á ökkla, læri og framhandlegg og Íris var brotin á báðum lærum. Í þyrlunni missti Hagalín meðvitund og við tók löng og ströng barátta þar sem hann var á tímabili í lífshættu.

Nær sér aldrei að fullu

„Mér var haldið sofandi í níu sólarhringa eftir slysið og það var fyrst á Þorláksmessu, 23. desember, sem ég fór í aðgerð þar sem var gert við hönd og ökkla. Erfiðlega hafði gengið að vekja mig því beinmergur komst í blóðrás, upp í höfuð og myndaði þar tappa. Því varð að fara varlega,“ segir Hagalín, sem var á sjúkrahúsi fram í febrúar á þessu ári. Fór þá í nokkurra vikna endurhæfingu á Grensásdeild Landspítalans, en í dag stundar hann reglulega líkamsrækt samkvæmt forskrift sjúkraþjálfara.

„Bein eru enn að gróa og stál er í handlegg, læri og ökkla. Sennilega mun ég aldrei ná mér að fullu. Þolið er minna en var og ég verð að forðast alla áreynslu. Þá hef ég enn ekki endurheimt skammtímaminnið, sem er hluti af því andlega áfalli sem ég og raunar öll mín fjölskylda varð þarna fyrir,“ segir Hagalín Ágúst að síðustu.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert