Nokkrar breytingar verða á legu borgarlínu í miðbænum miðað við þær tillögur sem settar eru fram í nýrri umhverfismatsskýrslu fyrir fyrstu lotu borgarlínu sem lögð var fram í skipulagsgátt til kynnar í vikunni.
Meðal annars verður Fríkirkjuvegur aðeins fyrir borgarlínu en ekki almenna umferð og ekki verður farið um Suðurgötu, vestan Tjarnarinnar, eins og áður var áformað. Einnig er gert ráð fyrir borgarlínuakrein framhjá Hörpu, sem ekki var í fyrri plönum. Þá vekur athygli að áfram er í kynningunni talað víða um Miklubrautarstokk frekar en Miklubrautargöng, þrátt fyrir að í nýlega uppfærðum samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sé talað fyrir göngum.
Um er að ræða uppfærðar hugmyndir sem áður höfðu verið lagðar fram í janúar 2021 þegar forsendur og frumdrög að fyrstu lotu verkefnisins voru kynntar.
Fyrsta lota er sá áfangi borgarlínuverkefnisins sem nær frá Ártúnshöfða og yfir þróunarsvæði vegna Sæbrautarstokks, um Suðurlandsbraut niður á Hlemm og þaðan niður Hverfisgötu á Lækjartorg. Því næst um háskólasvæðið og Vatnsmýri, gegnum BSÍ-svæðið og meðfram Landspítala og þaðan niður að HR, yfir Fossvogsbrú og um Kársnes upp í Hamraborg.
Nokkur svæði innan þessa áfanga eru áfram ófrágengin, en það er meðal annars þar sem þau eru hluti af öðrum verkefnum/skýrslum, deiliskipulag liggur ekki fyrir eða það á eftir að meta verkefnin betur. Þetta eru:
Í kortagögnum með skýrslunni má einnig sjá að eftir á að vinna deiliskipulag fyrir tengingu borgarlínunnar við Hamraborg, eða eins og það er orðað: „Deiliskipulag Hamraborgar verður skoðað þegar ákvarðanir Kópavogs liggja fyrir.“ Þá er lítið svæði neðan Arnarhóls við Hörpu einnig merkt sem svæði sem sé hluti af annarri skýrslu. Þá vantar inn útfærslu á BSÍ-svæðinu.
Ef byrjað er uppi við Ártúnshöfða má á kortagögnum sjá hvernig fyrsta stoppistöðin verður við nýtt torg sem fær nafnið Krossmýrartorg, en það er við núverandi gatnamót Breiðhöfða og Stórhöfða, stutt frá þeim stað þar sem Ísaga gas var áður til húsa.
Borgarlínan verður svo í sérrými, samhliða almennri umferð, niður nýjan hluta af Stórhöfða sem mun liggja að Sævarhöfða, rétt norðan við BL. Þarna á að fara um nýtt uppbyggingarsvæði á Ártúnshöfða, þar sem meðal annars verður nýtt íbúðahverfi með grunnskóla og leikskóla.
Þaðan heldur borgarlínan áfram yfir Geirsnef og það svæði sem verður hluti af þróunarsvæði Sæbrautarstokksins, í kringum Endurvinnsluna. Þar sem Sæbrautarstokkurinn er ekki hluti þessarar skýrslu er ekki farið náið í þá útfærslu, en ljóst er að það verða tvær brýr sitt hvoru megin við Geirsnefið og farið um verndaðar leirur vestan megin.
Um Suðurlandsbrautina, austan Skeifunnar, verður svo farið á milli núverandi götu og hjólastígsins í sérrými fyrir borgarlínuna. Hringtorgið þar sem Skeiðarvogur og Suðurlandsbraut mætast mun taka stakkarskiptum og verða breytt í hefðbundin fjögurra átta gatnamót. Það þýðir að tengingin inn í Fákafenið verður tekin í burtu.
Eftir hringtorgið er gert ráð fyrir að akreinum fyrir almenna umferð um Suðurlandsbraut og síðar Laugarvegur niður að Katrínartúni muni fækka um eina í hvora átt, en í staðinn koma sérrými fyrir borgarlínu. Var það einnig í fyrri áformum
Í skýrslunni er vísað til áhrifa sem þetta gæti haft á umferð á þessum hluta Suðurlandsbrautar. „Samgönguspá fyrir árið 2027 gerir ráð fyrir tilkomu Borgarlínunnar og þrengingu Suðurlandsbrautar úr fjórum akreinum í tvær. Samkvæmt spánni dregst dagleg bílaumferð á Suðurlandsbraut saman um 30% miðað við grunnárið 2019. Að sama skapi eykst farþegafjöldi í almenningssamgöngum um 200%. Það verður einnig 100 % aukning á farþegafjölda í almenningssamgöngum um Sæbraut og Súðavog. Það bendir allt til þess að við þessa aðgerð verði tilfærsla á bílaumferð frá Suðurlandsbraut yfir á Sæbraut og Miklubraut.”
Sá hluti Laugarvegs sem nær frá Katrínartúni niður á Hlemm verður svo lokað fyrir almenna umferð, en þar verður borgarlína í sérrými. Hlemmsvæðið er allt hugsað sem göngusvæði fyrir utan borgarlínuna eftir Laugarvegi og inn á Hverfisgötuna.
Um Hverfisgötu er svo áfram gert ráð fyrir að borgarlína verði í sérrými í vesturátt, en í blönduðu rými með almennri umferð í austurátt.
Þegar komið er niður Hverfisgötu tekur við breytt útfærsla á því sem hafði komið fram í frumdrögunum 2021. Gert er ráð fyrir litlum hring svo farið sé framhjá Hörpu og stoppistöð þar fyrir framan. Þá er gert ráð fyrir stoppistöð og aðstöðu fyrir vagnstjóra á bílastæðinu við Skúlagötu sem er vestan við Olís bensínstöðina.
Í Lækjargötu er líkt og í fyrri áformum gert ráð fyrir að fækka almennum akreinum um eina í hvora átt og hafa sérrými fyrir borgarlínu. Hins vegar hafa talsverðar breytingar verið gerðar á hvernig tenging frá Lækjargötu yfir að háskólasvæðinu eru hugsaðar. Áður var gert ráð fyrir að vagnar færu til suðurs eftir Fríkirkjuvegi og Skothúsveg, en þegar þeir væru að koma frá háskólanum færu þeir Suðurgötuna og framhjá ráðhúsinu niður í Lækjargötu.
Samkvæmt skýrslunni núna er alveg hætt við Suðurgötuáformin en þess í stað verður lokað fyrir almenna umferð um Fríkirkjuvegurinn og Skothúsveg upp að Bjarkargötu, en í staðinn verður sérrými fyrir borgarlínu. Samhliða þessu er gert ráð fyrir að Suðurgatan fyrir ofan Tjörnina verði að tvístefnugötu á ný.
Í skýrslunni frá 2021 er komið inn á þau áhrif sem þessi breyting er talin hafa: „Myndi sú breyting hafa jákvæð áhrif á greiðfærni borgarlínunnar. Talið er að sú breyting myndi leiða til minni bílaumferðar í miðborginni en líklegt er að umferð bíla í öðrum nærliggjandi götum myndi aukast, svo sem í Vonarstræti og Suðurgötu, sem bera aukningu af þeim toga illa. Lausn af þeim toga þar sem bílaumferð er takmörkuð að einhverju leyti þarf því að skoða nánar og í samhengi við framtíðarlausn á samgönguskipulagi Kvosarinnar”
Eftir Bjarkargötu verður blandað rými almennrar umferðar og borgarlínu að Melahringtorginu, en því verður reyndar skipt út fyrir ljósastýrð gatnamót.
Um Suðurgötu, sunnan núverandi hringtorgs, er gert ráð fyrir að fækka akreinum fyrir almenna umferð úr tveimur í hvora átt í eina og hafa á móti sérrými fyrir borgarlínu. Áfram er gert ráð fyrir að beygt sé af Suðurgötu niður Sturlugötu og í gegnum háskólasvæðið og framhjá Norræna húsinu og Öskju.
Uppi höfðu verið hugmyndir um að fara frekar Eggertsgötuna niður á Njarðargötu, enda mikill fjöldi íbúa á nemendagörðum þar. Hins vegar var talið að sú leið myndi þjóna þungamiðju starfsemi háskólans verr, auk þess sem leiðin myndin lengjast um 1,3 km án þess að stöðvum yrði fjölgað. Slíkt myndi auka bæði stofnkostnað og rekstrarkostnað og vegalengdir í kerfinu.
Breyta á gatnamótum Sturlugötu og Njarðargötu nokkuð og leggja að hluta nýjan kafla af Njarðargötu fyrir bæði almenna umferð og borgarlínu í sérrými. Fer borgarlínan svo yfir gatnamót Njarðargötu og Hringbrautar um sérrými og inn á stæðið þar sem nú er N1 stöðin. Svæðið sem við tekur er þróunarsvæði, en ljóst er út frá teikningum að bensínstöðin mun ekki vera þar áfram.
Allskonar hugmyndir hafa verið fyrir BSÍ reitinn. Allt frá uppbyggingu samgöngumiðstöðvar og yfir í slökkviliðsstöð, nú þegar horft er til þess að færa starfsemi slökkviliðsins úr Skógarhlíð í nýja miðstöð viðbragðsaðila við Klepp. Hins vegar hefur þeim uppbyggingaráformum ítrekað verið frestað af ríkinu.
Í skýrslunni núna er tekið fram að BSÍ svæðið sé ekki rannsakað í henni og er nákvæm útfærsla væntanlega tengt ákvörðunum um hvernig uppbygging svæðisins verður.
Hins vegar er gert ráð fyrir að borgarlínan komi inn á Burknagötu, sem er nýja gatan á milli Nýja Landspítalans og Læknagarða. Gert er ráð fyrir bæði almennri umferð og borgarlínu í sérrými út að gatnamótum Snorrabrautar.
Við tekur annað svæði sem nokkur óvissa ríkir um, Miklatorg, eða Miklabrautarstokks/ganga svæðið. Í ágúst á þessu ári var greint frá uppfærslu samgöngusáttmálans þar sem meðal annars kom fram að ekki væri lengur horft til Miklubrautarstokks, heldur væri nú horft til þess að setja Miklubraut í göng. Í nýju skýrslunni sem lögð er nú fram virðist þó enn heldur óljóst hvort verið sé að vinna með stokk eða göng. Þannig má sjá á korti að byggð á fyrirhuguðum þróunarreit við svokallað Miklatorg er samkvæmt vinningstillögu um Miklabrautarstokk.
Sjá má vinningstillöguna um Miklabrautarstokk frá árinu 2021 í meðfylgjandi myndbandi.
Einnig eru tengingar frá gatnamótum Burknagötu og Snorrabrautar og yfir til Arnarhlíðar í Hlíðarendahverfi í takti við uppbyggingaráform tengd stokknum, en það gæti þó einnig passað að einhverju leiti við hugmyndir um göng. Í minnisblaði vegna samgöngusáttmálans má sjá að horft er til þess að göngin nái einnig vestur fyrir Snorrabraut.
Í umhverfismatsskýrslunni sjálfri er einnig ítrekað talað um stokk og að gert sé ráð fyrir Miklubraut í stokk. Á öðrum stöðum í skýrslunni er þó vísað til þess að við yfirferð samgöngusáttmálans sé ákjósanlegra að setja Miklubraut í jarðgöng. Að lokum er talað um mögulega staðsetningu Miklubrautarganga og vísað í mynd sem þó ekki er að finna í skýrslunni.
Þegar komið er yfir Hringbraut/Miklubrautargöng tekur við hluti af Arnarhlíð sem á eftir að leggja og verður aðeins hugsaður fyrir borgarlínu. Eftir Valshlíð er svo bæði sérrými fyrir borgarlínu og almennt rými. Nær það yfir Flugvallarveg og niður Nauthólsveg niður í HR.
Menntavegur, sem liggur inn á HR svæðið, verður aðeins hugsaður fyrir borgarlínu, sem og nýr gata sem mun liggja í átt að sjónum og meðfram flugvellinum, vestan megin við Braggann og húsnæði Siglingafélags Reykjavíkur. Mun sá vegur liggja að Fossvogsbrúnni, en líkt og áður sagði er útfærsla í kringum brúna ekki hluti af þessari skýrslu.
Þegar komið er yfir í Kópavog er komið inn á Bakkabraut þar sem gert er ráð fyrir borgarlínu í sérrými og að hluta til í sameiginlegu rými. Beygt er upp á Borgarholtsbraut í gegnum nýja götu sem mun liggja framhjá núverandi húsnæði Hjálparsveitar skáta í Kópavogi og upp á Þinghólsbraut og áfram á Borgarholtsbraut. Þar verður lokað fyrir almenna umferð í vesturátt, en borgarlína og almenn umferð í blönduðu rými til austurs.
Stæðin sem eru við Sundlaug Kópavogs og liggja upp við Borgarholtsbraut verða tekin undir breytingar þar sem borgarlína og göngu- og hjólastígur munu liggja. Enn á eftir að útfæra tenginguna við Hamraborgarsvæðið.