Algjör óvissa ríkir um næstu skref í aðgerðum Kennarasambands Íslands, náist samningar ekki á næstunni við ríki og sveitarfélög.
Síðustu yfirstandandi og boðuðum verkfallsaðgerðum lýkur í grunn-, framhalds- og tónlistarskólum þann 20. desember næstkomandi. Rétt í tæka tíð fyrir jólafrí. Þá detta þeir kennarar sem hafa tekið þátt í verkföllum aftur inn á launaskrá hjá ríki og sveitarfélögum.
Leikskólakennarar í fjórum leikskólum halda hins vegar áfram í ótímabundnum verkföllum.
Ólíklegt er að frekari aðgerðir verði boðaðar fyrr en á næsta ári, náist samningar ekki, þar sem jólafrí á öllum skólastigum, öðrum en leikskólum, standa fram í janúar.
Mjöll Matthíasdóttir, formaður félags grunnskólakennara, vill í samtali við mbl.is, ekki gefa neitt upp um næstu skref í aðgerðum Kennarasambands Íslands (KÍ), náist samningar ekki á næstunni.
„Við höldum okkar spilum þétt að okkur, hvað við gerum í næstu skrefum. Vonum bara það besta, að það verði klárað að semja, það er samningafundur á morgun,“ segir Mjöll.
Það er því ljóst að óvissa ríkir með áframhaldandi aðgerðir kennara á öðrum skólastigum en í leikskólum. Forysta KÍ hefur ekki viljað gefa upp hvort atkvæðagreiðslur um verkföll í fleiri skólum séu í undirbúningi.
Formaður KÍ hefur þó sagt að hann útiloki ekki að fleiri kennarar taki þátt í aðgerðum síðar, og að kennarar í fleiri skólum hafi lýst sig tilbúna til að taka þátt.
Nú standa yfir verkföll kennara í tíu skólum, en kennarar í Menntaskólanum í Reykjavík lögðu niður vinnu í dag. Áður höfðu kennarar í níu skólar; fjórum leikskólum, þremur grunnskólum, einum framhaldsskóla og einum tónlistarskóla, tekið þátt í verkfallsaðgerðum frá 29. október.
Verkföllum í Laugalækjarskóla í Reykjavík, Áslandsskóla í Hafnarfirði og Lundarskóla á Akureyri lýkur þann 22. nóvember, en 25. nóvember hefja kennarar í Árbæjarskóla í Reykjavík, Heiðarskóla í Reykjanesbæ og Garðaskóla Garðabæ verkfallsaðgerðir.
Boðað hefur verið til samningafundar með samninganefndum KÍ og ríkis og sveitarfélaga hjá ríkissáttasemjara á morgun klukkan 13. Er það fyrsti formlegi samningafundur frá því 2. nóvember. Óformlegir fundir formanna nefndanna og vinnufundir hafa þó reglulega átt sér tað.