Arna Lára Jónsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi, segir efnahagsmál, nánar tiltekið vexti og verðbólgu, brenna mest á kjósendum. Samt eru sértæk mál í Norðvesturkjördæmi sem skipta fólk máli eins og til dæmis bágborin staða samgöngumála.
„Það vantar náttúrlega jarðgöng og það vantar að byggja brýr. Við erum að lenda í seinkunum hér í þessu kjördæmi því peningarnir eru búnir í samgönguáætlun, sem er auðvitað alveg glatað,“ segir hún.
Arna Lára kveðst skilja vel tortryggni í garð sjókvíaeldis og hún vill herða regluverk í kringum greinina. Hún sem bæjarstjóri Ísafjarðar segir þó að mikill efnahagslegur ávinningur fylgi greininni og það hefði verulegar afleiðingar ef hún yrði bönnuð.
„Fólk sem býr ekki í þessum byggðum upplifir það ekki svona sterkt eins og við gerum. Fasteignamat í Ísafjarðarbæ hefur hækkað um 84% á síðustu fjórum árum og þetta er náttúrlega alveg stórkostlegt.“