Kallar eftir opinni umræðu um verkföllin

Jón Pétur Zimsen.
Jón Pétur Zimsen. mbl.is/Hanna

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri og frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins, hvetur þá kennara sem eru ósáttir við aðferðir Kennarasambands Íslands til að láta í sér heyra og láta ekki þagga niður í sér. 

Hann segir tugi einstaklinga úr skólasamfélaginu hafa haft samband við sig, sem þori ekki að gera athugasemdir við verkfallsaðgerðir KÍ vegna ótta við útskúfun úr samfélagi kennara.

Jón Pétur segist þekkja vel mikilvægi samstöðu í kjarabaráttu af eigin raun frá harðri kjaradeilu árið 2004. En segir þó blinda samstöðu, sem knúin sé áfram af réttlætiskennd og gagnrýnislausri ofurtrú á þeim sem stýra, geta verið hættulega.

Hann tekur fram að það sé skýrt að hið opinbera eigi að standa við samkomulag sitt gagnvart kennurum en það réttlæti þó ekki verkfallsaðgerðirnar sem beinist nú að örfáum skólum á landsvísu.

Þetta kemur fram í nýrri færslu hans á Facebook.

Komin á mjög vondan stað

Í færslu sem Jón Pétur birti á laugardag gagnrýndi hann að kennarar hefðu lagt niður störf í útvöldum skólum.

Segir hann aðgerðir kennara aðeins bitna á örhópi barna og fjölskyldum þeirra sem sé óendanlega óréttlátt og skaðlegt. Telur hann að kennarar hefðu getað beitt áhrifaríkari aðgerðum.

„Skrifaði færslu um helgina um aðferð KÍ í verkfallinu sem nú er í gangi. Ég gerði það eftir að 3 fjölskyldur höfðu haft samband og rakið fyrir mér ástandið á heimilum þeirra eftir þriggja vikna verkfall. Staðan var misjöfn á heimilunum en það sem var sammerkt hjá þeim öllum að verkfallið hafi mjög mikil áhrif á líf barnanna til verri vegar enda skólinn mjög mikilvægur fyrir öll börn. Ég fékk líka sögur af hörmungarstöðu barna sem stóðu höllum fæti fyrir verkfallið og voru nú komin á mjög vondan stað,“ segir í færslu skólamannsins sem birtist í dag.

Uppnefndur af skólafólki

Færsla Jóns Péturs var harðlega gagnrýnd á Facebook-hópnum Skólaþróunarspjallinu þar sem hann var meðal annars uppnefndur af skólafólki sem taldi hann stéttsvikara. 

„Ég var kallaður ýmsum nöfnum s.s. svikari, atkvæðaveiðari, Brútus, með Messíasarkomplexa og að tilgangur minn væri að sækja atkvæði í örhópinn. Þetta er ekki svaravert og lítið gjald miðað við það sem áðurnefnd börn þurfa að þola.“

Þá kveðst hann jafnframt hafa fengið tugi skilaboða frá skólafólki sem þorði ekki að tjá sig inni á þræðinum að ótta við útskúfun úr samfélagi kennara ef það gerði athugasemdir við aðferð verkfallsins.

Segir hann það umhugsunarvert.

Val Kennarasambandsins að fara þessa leið

„Núna er örhópur barna tekinn út úr daglegri reglu sinni og þetta er ekki eins og þau séu í sumarfríi eins og sumir hafa haldið fram. Að bara þessi börn séu tekin fyrir er VAL KÍ. Það er fólk sem velur þetta í umboði allra sem eru í KÍ.

Það þýðir að allir kennarar sem eru í KÍ bera sinn hluta ábyrgðarinnar þar á meðal ég. Mér finnst aðferðin ómannúðleg og segi það upphátt. Ég hvet þá kennara sem ekki eru sáttir við aðferðina, ekki aðgerðina, að láta í sér heyra. Láta ekki þagga niður í sér,“ skrifar Jón Pétur.

„Samkomulög á að standa við, það er skýrt, en það á að gagnrýna þegar börn eru beitt órétti. Við kennarar kennum nemendum okkar það og við erum fyrirmyndir, sýnum það í verki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert