„Tímamótadómur og vekur upp spurningar“

Jón Gunnarsson segir að almennt sé reglan sú að þingið …
Jón Gunnarsson segir að almennt sé reglan sú að þingið hafi síðasta orðið við lagasetningu. mbl.is/Óttar

Matvælaráðuneytið er með niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, um að afgreiðsla búvörulaga í vor hafi stangast á við stjórnarskrá, til skoðunar. Um er að ræða tímamótadóm.

Þetta segir Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra í matvælaráðuneytinu, í samtali við mbl.is.

„Þetta er auðvitað ákveðinn tímamótadómur og vekur upp spurningar,“ segir Jón.

Eft­ir að mat­vælaráðherra hafði lagt fram frum­varp um breyt­ing­ar á bú­vöru­lög­um gerði at­vinnu­vega­nefnd um­tals­verðar breyt­ing­ar á frum­varp­inu, þar sem kjötaf­urðastöðvum var meðal ann­ars veitt und­anþága frá sam­keppn­is­lög­um. Í niðurstöðu héraðsdóms sagði að ekki gera mætti svo miklar breytingar frumvarpi í meðförum þingsins að í raun sé um nýtt frumvarp að ræða.

Þingið venjulega með síðasta orðið

Jón segir að hann hafi ekki náð að kynna sér dóminn almennilega en segir að það vakni upp nokkrar spurningar.

„Þingið hefur getað gert þær breytingar á lagafrumvörpum sem að það hefur viljað, hefur alltaf síðasta orðið í því. Maður veltir því fyrir sér hvar liggur þetta mat þá hvenær þingið er að ganga of langt. Ég geri nú ráð fyrir því að þetta mál fari til æðra dómstigs – því verði áfrýjað. Dómstólar þar þurfa að fjalla um þetta frekar,“ segir Jón.

Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar, sagði í samtali við mbl.is í dag að lögfræðingar nefndarsviðs hafi metið breytingar sem svo að þær væru innan lagaramma og gengu ekki of langt.

Mikið matsatriði

„Mér finnst þetta vera ákveðin tímamót vegna þess að það hefur almennt verið reglan að þingið hefur síðasta orðið við lagasetningu og þessar breytingar fóru í gegn,“ segir Jón en tekur fram að valdsvið þingsins sé takmarkað af stjórnarskrá.

„En við breytingar á lagafrumvörpum þá hefur þingið mjög oft gengið mjög langt í þeim efnum. Kannski oftar en ekki sem það eru gerðar ansi miklar breytingar á lagafrumvörpum í þinglegri meðferð hjá nefndum þingsins.

Þetta er mikið matsatriði hvenær er gengið of langt og hvenær menn fara þá yfir mögulega einhverja línu í þeim efnum,“ segir hann og bendir á að samkvæmt Þórarni hafi lögfræðingar fengið lögfræðiálit sem sagði breytingar vera innan ramma laganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert