Samtök fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) segja dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, um að afgreiðsla búvörulaga hafi verið í andstöðu við stjórnarskrá, vera vonbrigði og fara fram á það við Samkeppniseftirlitið (SKE) að málinu verði áfrýjað.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef SAFL.
SAFL hefur þegar sent bréf til stjórnar SKE þar sem farið er fram á að dómi héraðsdóms verði áfrýjað til Hæstaréttar svo fljótt sem unnt er og þá er bent á það að málið hafi fengið flýtimeðferð fyrir héraðsdómi.
„Um er að ræða fordæmalausa stöðu þar sem framhaldið veltur á viðbrögðum Samkeppniseftirlitsins,“ segir í tilkynningunni.
SAFL segir að það verði að telja að breytingar atvinnuveganefndar hafi rúmast innan þess ramma sem var lagður við framlagningu frumvarpsins á Alþingi. Þá er vísað í orð Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra:
„Ég held að þetta sé gott dæmi um mál sem þingið á að taka til kostanna og sýna hvað í því býr og sýna hvað frumvarpið hefur að geyma þegar það er dregið úr því það mesta og mikilvægasta sem kemur til með að styðja við markmiðin sem við erum sammála um hér.“
Í tilkynningunni er bent á að það dómur héraðsdóms sé þvert á það sem komi fram í minnisblaði skrifstofu Alþingis en þar segir:
„Telja verður að þær breytingartillögur sem atvinnuveganefnd hefur haft til umfjöllunar uppfylli skilyrði stjórnskipunar um efnisleg tengsl og auðkenningu við það frumvarp sem nefndin hefur haft til athugunar. Samþykkt þeirra virðist ekki ganga gegn áskilnaði 44. gr. stjskr. um þrjár umræður lagafrumvarps.“
Í bréfi sem SAFL sendi á SKE er þó tekið fram að í öðru minnisblaði sem var gefið út þann 11. apríl 2024 af nefndarritara atvinnuveganefndar sagði meðal annars:
„Varð úr að haldnir voru fundir með formanni þar sem honum var tjáð að fyrirhugaðar breytingar gengu langt og að best færi á því að lagt yrði fram sérstakt frumvarp um sama efni og ákvörðun um afgreiðslu nefndarálitsins væri að lokum pólitísks efnis.“
Ekki liggur fyrir hvort að SKE muni áfrýja málinu til Hæstaréttar en hagaðilum hefur verið bent á að gefa umsögn til SKE.
„Að mati SAFL er nauðsynlegt að það verði gert [áfrýjað] enda ljóst að afar mikilvægt er að skera úr um þá réttaróvissu sem nú er uppi.“