Rannsókn á tveimur sakamálum nær lokið

Lögreglan á Austurlandi hefur nánast lokið rannsókn á tveimur sakamálum …
Lögreglan á Austurlandi hefur nánast lokið rannsókn á tveimur sakamálum og verða málin fljótlega send héraðssaksóknara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn lögreglunnar á Austurlandi í tengslum við andlát hjóna á áttræðisaldri í heimahúsi í Neskaupstað í ágúst og árásarmáls á Vopnafirði í október þar sem maður er grunaður um alvarlega líkamsárás gagnvart fyrrverandi sambýliskonu er að mestu lokið.

„Rannsókn í báðum þessum málum er mestu leyti lokið að hálfu lögreglunnar. Við bíðum eftir gögnum sem við vonumst eftir að fá fljótlega og um leið og þau berast verða málin send héraðssaksóknara,“ segir Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, í samtali við mbl.is.

Maðurinn sem er grunaður um að hafa orðið hjónunum að bana í Neskaupstað sætir gæsluvarðhaldi til 29. nóvember en þá hefur hann setið í gæsluvarðhaldi í 14 vikur.

Samkvæmt lögum um meðferð sakamála er aðeins heimilt að vista grunaða í gæsluvarðhaldi í 12 vikur án þess að ákæra sé gefin út gegn þeim. Sá tímafrestur rann út síðastliðinn fimmtudag án þess að ákæra væri gefin út.

Gæsluvarðhald framlengt

Kristján Ólafur segir að samkvæmt úrskurði dómara þá meti hann það svo að málið sé þess eðlis að það sé eðlilegt að halda manninum í gæslu lengur vegna rannsóknarhagsmuna.

Gæsluvarðhald yfir manninum sem er grunaður um alvarlega líkamsárás gagnvart fyrrverandi sambýliskonu sinni á Vopnafirði í síðasta mánuði hefur verið framlengt til 11. desember en það átti að renna út 26. nóvember. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert