Samninganefndir kennara og ríkis og sveitarfélaga komu saman til formlegs samningafundar hjá ríkissáttasemjara klukkan 13:00 í dag, en sautján dagar eru frá síðasta fundi.
Ríkissáttasemjari sagði í samtali við mbl.is í gær að báðir deiluaðilar hefðu samþykkt að prófa nýja aðferðafræði og að kennarar væru tilbúnir að setja til hliðar í bili kröfuna um viðmiðunarhópa. Var það forsenda fyrir því að hægt var að boða til þessa samningafundar í dag.
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is að unnið hefði verið að því í síðustu viku að koma á samningafundi
„Það var unnið að þessu í síðustu viku og í gær líka á formannafundum og í alls konar samtölum og á minni fundum. Vonandi ber þetta einhvern árangur í dag að hreyfa okkur eitthvað áfram.“
Inga sagði það skipta miklu máli ef kennarar væru tilbúnir að setja til hliðar kröfu um að finna viðmiðunarhópa á almennum markaði til að jafna laun þeirra við. Það kæmi hins vegar í ljós á fundinum hvor það yrði raunin.
Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur gert samninganefnd Kennarasambandsins tvö tilboð en þeim var báðum hafnað.