Verðbólga er á niðurleið og væntingar eru um að vaxtalækkunarferli sé hafið. Það er hins vegar hætta á því að ógna þessum árangri með hærri sköttum, auknum ríkisútgjöldum og aðildarviðræðum við Evrópusambandið, allt að óþörfu.
Þetta segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.
Fjárlög voru samþykkt í gær og Bjarni segir að þau muni stuðla að áframhaldandi lækkun verðbólgu, en hann segir aðhald hafa verið í ríkisfjármálunum frá 2022 sem birtist í því að ríkið hafi tekið minna til sín í þjóðarbúskapnum frá þeim tíma
„Það er mjög ánægjulegt að sjá markaðsaðila spá því núna að verðbólgan verði komin innan vikmarka eftir einungis nokkra mánuði. Verðbólgan, sem var 8% fyrir ári síðan, er núna komin í 5% og á niðurleið. Það er vert að benda á hve krónan hefur verið stöðug í langan tíma og hefur verið að styrkjast. Þannig hagkerfið er í mjúkri lendingu og við erum að ná árangri hraðar en flestir gerðu ráð fyrir fyrr á þessu ári. Þetta greiðir götuna fyrir vaxtalækkanir á komandi misserum,“ segir Bjarni.
Greiningardeild Landsbankans spáir því að verðbólga lækki nokkuð hratt allra næstu mánuði og í nýlegri verðbólguspá er gert ráð fyrir því að verðbólga verði komin niður í 3,5% í febrúar.
Bjarni telur það sjaldan hafa verið jafn augljóst að vaxtalækkanir séu fram undan og segir: „Það er eiginlega allt sem bendir til þess.“
Spurður hvort að það sé of snemmt að segja að hættan sé liðin hjá segir Bjarni:
„Hættan er auðvitað ekki liðin hjá vegna þess ef menn ætla að rífa í stýrið núna og boða stóraukin ríkisútgjöld, skattahækkanir og valda óvissu með vangaveltum um aðildarumsókn að Evrópusambandinu þá er auðvitað verið setja þjóðfélagið allt upp á rönd – á sama tíma og við erum að sigla þessu heim í höfn og fá mjúka lendingu.
Verkefni okkar er einfaldlega að klára glímuna við verðbólguna – það gengur vel – við þurfum bara að klára það. Og svo að fara beina sjónum okkar að því að sem tryggir að hagkerfið vaxi inn í framtíðina,“ segir hann.
Hann segir að Seðlabankinn hafi kælt hagkerfið verulega með háum vöxtum, væntingar séu á niðurleið og markaðir og mælingar staðfesti það.
„Þess vegna er ástæða að fagna þessum árangri sem er að birtast okkur.“
Spurður hvort að það sé súrt að þetta komi svona stuttu fyrir kosningar, en ekki fyrr, segir hann að í lífi stjórnmálamanns þá þurfi að fást við stöðuna eins og hún er. Vextir hefðu í upphafi kannski mátt hækka fyrr og þá værum við komin lengra í vaxtalækkunarferlinu.
„En það sem við skuldum fólkinu í landinu á þessum tímapunkti er að taka réttar ákvarðanir og fjárlögin eru að styðja við þetta ferli. Þessar verðbólgumælingar eru að staðfesta það og væntingar markaðarins eru um að þetta muni halda áfram. Þannig við skulum leyfa okkur að fagna því að þetta er allt í rétta átt því það eru svo miklir hagsmunir undir fyrir bæði heimili og fyrirtæki,“ segir hann.
Hann segir að það beri að varast skyndilausnir við baráttuna gegn verðbólgu og vöxtum og vísar í gamla orðatiltækið „sígandi lukka er best“, sem hann segir okkur ávallt þurfa að bera í í huga.
„Það sem hefur gagnast okkur Íslendingum í gegnum árin langbest er að leggja áherslu á að tækifærin í landinu raungerist. Það hefur skilað okkur hagvexti og hagvöxturinn skiptir miklu máli af því að með honum þá verða til ný atvinnutækifæri og hagvöxtur mun sjá til þess að ríkið geti staðið myndarlega undir opinberri þjónustu án þess að skuldsetja framtíðarkynslóðir.“
Hann segir að á komandi árum megi ekki missa þolinmæðina heldur halda haus og klára verkefnið við að ná niður verðbólgu, vöxtum og loka fjárlagagatinu.
„Í beinu framhaldi af því er hægt að létta undir með heimilum, með skattkerfisbreytingum, skattalækkunum, greiða götu atvinnustarfseminnar og hefja nýja sókn. Til þess að gera þetta þá þarf í fyrsta lagi ekki að ganga í Evrópusambandið, það þarf í öðru lagi ekki að auka ríkisútgjöldin markvisst og það þarf ekki að hækka skatta,“ segir Bjarni.
Hann segir að hagtölur sem Hagstofa gefi út um að hagvöxtur sé að hverfa á þessu ári fari ekki saman við önnur vinnumarkaðsgögn eins og fjöldi vinnustunda og fjölda starfandi. Hann segir það vera óumdeilt að háir vextir Seðlabankans séu búnir að kæla hagkerfið verulega.
„Verkefni Seðlabankans hverju sinni er að finna þennan gullna meðalveg og tryggja mjúka lendingu. Við erum í dauðafæri núna að fá mjúka lendingu í hagkerfið, ef við förum ekki að rykkja í stýrið, vegna þess að þetta er allt á réttri leið,“ segir Bjarni.
Hann segir að það sé umhugsunarefni að stýrivextir séu enn þá 9% á sama tíma og Hagstofan segi að hagvöxtur á árinu verði 0,1%.
Þarna er eitthvað misgengi í hlutum að hans mati og augljóst að það sé búið að ryðja brautina fyrir vaxtalækkunum.
„Frá því að við komum verðbólgunni innan markmið Seðlabankans og fáum áframhaldandi lækkanir á verðbólgu þá held ég að það fari strax að birta til. Það mun hleypa nýju lífi í markaðina að fá vaxtalækkanir á komandi mánuðum og hagvöxtur tekur við sér,“ segir hann.