Sigurður Ingi Jóhannsson fjármála-, efnahags- og innviðaráðherra tók fyrstu skóflustunguna að Ölfusárbrú fyrr í dag.
Við tilefnið undirrituðu Berþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar, Sigurður Ingi, og Þorvaldur Gissurarson forstjóri ÞG Verks, verksamning vegna byggingar brúarinnar.
Stefnt er að því að hleypa umferð á brúna árið 2028 samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni.
Brúnni er ætlað að færa hringveginn út fyrir þéttbýli Selfoss. Núverandi Ölfusárbrú var reist fyrir tæpum 80 árum en daglega fara um 14.500 ökutæki um brúna.
Til stendur að reisa 330 metra langa og 19 metra breiða brú. Leggja þarf nýja vegarkafla að og frá brúnni sem verður staðsett austan Selfoss.
Áætlaður kostnaður við byggingu brúarinnar og tengda vegi er í heild sinni 14,3 milljarðar, þar af er brúin talin kosta 8,4 milljarðar.
ÞG Verk kemur að byggingu brúarinnar en verktakinn hefur ráðið til sín hönnunarfyrirtækin Ramboll og VSL til að aðstoða sig við byggingu brúarinnar.
Fjármagnskostnaður (verðbætur til verkloka og framkvæmdafjármögnun) vegna lántöku er áætlaður 3,6 milljarðar. Samtals er því heildarkostnaður við verkið áætlaður um 17,9 milljarðar sem ætlunin er að standa undir með gjaldtöku af umferð, segir í tilkynningu.