Stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur heimilað umferð vélknúinna ökutækja um Vonarskarð til fimm ára. Akstur á svæðinu verður í fyrsta lagi heimilaður næsta haust.
Hvort heimila eigi umferð um Vonarskarð hefur lengi verið eitt helsta deilumál er varðar Vatnajökulsþjóðgarð. Í raun hefur verið rifist um þetta alveg frá því að þjóðgarðurinn var stofnaður fyrir um 14 árum þegar var lokað fyrir umferð um Vonarskarð.
Á mánudag hélt stjórn Vatnajökulsþjóðgarð aukafund sem snerist fyrst og fremst um auglýsingar jöklaferða, en þar var einnig tillaga samþykkt um tilraunaverkefni til fimm ára þar sem heimila á akstur um Vonarskarð á haustin – frá 1. september þar til ófært er orðið.
„Þetta er búið að vera í meðferð hjá stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hvernig eigi að finna eitthvert jafnvægi milli þessara tveggja hagsmuna,“ segir Jón og vísar þar til náttúruverndar annars vegar og þeirra sem vilja aka þarna um hins vegar.
„Niðurstaðan var sú að við ætlum til tilraunar í fimm ár að opna þarna fyrir takmarkaða umferð vélknúinna ökutækja,“ segir Jón Helgi Björnsson stjórnarformaður, sem lagði fram tillöguna sem samþykkt var með sex atkvæðum.
„Það þarf að breyta stjórnunar- og verndaráætlun í samræmi við þessa tilraunaopnun. Þannig það verður í fyrsta lagi á næsta ári [sem opnað verður fyrir umferð],“ segir Jón enn fremur.
Ekki voru allir sáttir með tillöguna. Benedikt Traustason stjórnarmaður lagðist einn gegn henni á fundinum. Hann skrifar í bókun sína að lítið tillit hafi verið tekið til þeirra fárra fjarskiptamöguleika á svæðinu, virkra eldstöðva, og þeirra umferðarslysa sem orðið hafa á svæðinu.
„Upplýsingar um slíka atburði koma hvergi fram í gögnum stjórnar,“ segir enn fremur í bókuninni.
Engin tilraun hafi heldur verið gerð til að meta hvaða áhrif tillagan gæti haft á fjölda gesta sem heimsækja svæðið sem hlýtur að teljast frumforsenda þess að hægt sé að taka afstöðu til málsins.
„Þvert á móti þykir formanni og varaformanni stjórnar, sem skipaðir eru af ráðherra sem nú stendur í kosningabaráttu, eðlilegt að keyra í gegn afgreiðslu á einu stærsta deilumáli garðsins á aukafundi, þar sem dagskrá fundar er birt með fimm daga fyrirvara skömmu fyrir kosningar,“ skrifar Benedikt enn fremur.
Þegar Jón stjórnarformaður er spurður út í þessa bókun og hvers vegna tillagan var samþykkt á aukafundi segir hann að til hafi staðið að taka málið fyrir á næsta fundi þar sem öll gögn hefðu borist í hús.
Sá fundur hefði átt að vera í desember, en síðan hafi stjórnin ákveðið að koma saman á aukafundi til að taka ákvörðun um annað mál, íshellaferðir og jöklagöngur. Því máli var þó frestað fram að næsta stjórnarfundi líkt og upphaflega stóð til.
„Ég hafna því alfarið að það hafi verið eitthvað óvenjulegt við þetta,“ segir hann. „Hefði ekki verið þessi aukafundur hefði átt að afgreiða þetta á næsta fundi stjórnar.“
„Og ég hafna því alfarið að það hafi verið einhver pólitík blönduð í þetta,“ bætir hann við.