Lögreglan á Suðurlandi segir að frá því á föstudag hafi verið skráð sjö umferðarslys í umdæminu.
„Í þremur af þessum umferðarslysum voru meiðsli á fólki og í einu tilfelli var um alvarlegt umferðarslys að ræða og það á minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa. Alls hafa tólf einstaklingar slasast í umferðinni í umdæminu, frá því á föstudag,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni.
Þá bendir hún á að að enn og aftur hafi lögreglan haft afskipti af ökumönnum þar sem barn sé laust í bifreiðinni. „Slíkt er með öllu ótækt,“ að sögn lögreglu.
Þá voru fjórir ökumenn stöðvaðir grunaðir um vímuakstur og fjórir til viðbótar voru kærðir fyrir of hraðan akstur. Sá sem hraðast ók var á 120 km/klst. hraða, þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.