Gosið gæti varað lengur: Meiri fyrirstaða í gosrásinni

Frá eldgosinu sem hófst á tólfta tímanum.
Frá eldgosinu sem hófst á tólfta tímanum. mbl.is/Eyþór

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur eldgosið sem hófst fyrir miðnætti ekki vera til marks um breyttan takt á Reykjanesskaga þó aðdragandinn hafi ekki verið nákvæmlega sá sami og síðast. 

Hann segir að þó að gosið virðist nú aflminna en það sem braust út í ágúst sé það ekki endilega merki um að það verði minna. Mögulega muni þetta gos vara lengur en það síðasta.

Hann segir eldgosið í kvöld staðfesta það að gosrásarkerfið undir Reykjanesskaga sé enn virkt.

Hugsanlega hafi verið meiri fyrirstaða núna í gosrásinni en síðast þar sem lengri tími hafi liðið milli eldgosa sem þýðir að kvikan í gosrásinni sé orðin seigari. Þýðir það meiri fyrirstaða fyrir þá kviku sem er að reyna að brjóta sér leið til yfirborðs.

Breytt mynstur?

Í tilkynningu Veðurstofunnar fyrr í kvöld segir að athygli hafi vakið að skjálftavirkni jókst ekki í aðdraganda gossins sem hófst í kvöld, ólíkt því sem gerst hefur í aðdraganda fyrri gosa á Reykjanesskaga.

Þá hafi þróunin undanfarna mánuði verið sú að það þurfi alltaf aðeins meira magn af kviku að safnast fyrir í kvikuhólfinu undir Svartsengi milli eldgosa til að koma næsta atburði af stað.

Kvikumagnið sem hafði safnast undir Svartsengi fyrir þetta eldgos var aftur á móti svipað og hafði safnast fyrir síðasta gos.

„Þetta er vísbending um að það munstur sem sést hefur hingað til í fyrri eldgosum er mögulega að breytast,“ segir í tilkynningunni.

Svipað magn af kviku að safnast fyrir

Þorvaldur segir aðdraganda þessa eldgoss hafa verið mjög svipaðan og fyrir síðustu gos. 

Hann bendir á að þó mælingar gefi til kynna að aðeins meira magn hafi safnast fyrir í geymsluhólfinu undir Svartsengi fyrir hvern atburð undanfarna mánuði þá hafi magnið sem safnaðist fyrir í geymsluhólfinu fyrir þetta gos verið mjög svipað og fyrir þau þrjú eldgos sem komu á undan.

Hægist alltaf á flæðinu

Eldgosið sem braust út í kvöld á Sundhnúkagígaröðinni er sjöunda gosið á svæðinu frá því í desember á síðasta ári.

Spurður hvort að þetta gos styrki hann í þeirri trú, að eldsumbrot muni halda áfram á Reykjanesskaga næstu mánuðina og jafnvel árin, segir Þorvaldur erfitt að svara því.

Lengri tíminn sem líði milli atburða gefi aftur á móti til kynna að það sé farið að hægja á flæði kviku úr dýpra kvikuhólfinu undir Svartsengi í það grynnra.

Ef flæðið í grynnra kvikuhólfið úr því dýpra fer undir þrjá rúmmetra á sekúndu þá gæti það stöðvast alveg sem gæti markað endalokin á þessari atburðarás. Útlit sé fyrir að við séum alltaf að nálgast þau mörk. Að mati Þorvaldar gæti það gerst eftir að eitt til tvö eldgos hafa liðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert