„Þurfum að fá úr þessu skorið“

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Tillaga liggur nú fyrir borgarráði um að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, muni skera úr um hvort úthlutun Reykjavíkurborgar á byggingarheimildum til Ríkisútvarpsins ohf. árið 2015 hafi falið í sér ólögmætan opinberan stuðning.

„Ég lagði til í vikunni að borgarráð tilkynni þessa úthlutun til ESA í ljósi þess að ríkisaðstoðarreglur EES-samningsins og reglur ESA setja fjármögnun ríkisstyrktra fjölmiðla þó nokkur takmörk. Við þurfum að mínu mati að fá úr því skorið hvort þessi gæði, sem borgin framseldi Ríkisútvarpinu án endurgjalds, hafi falið í sér ólögmætan opinberan stuðning,“ segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.

„Einnig þarf að fá úr því skorið hvort Reykjavíkurborg hafi með þessu tryggt RÚV efnahagslegt forskot á samkeppnisaðila á fjölmiðlamarkaði, en nægt er nú forskotið sem ríkismiðlinum er tryggt fyrir,“ bætir Hildur við.

Hefðbundin gjöld ekki greidd

Árið 1990 fékk Ríkisútvarpið lóðina frá borginni en forsenda samningsins var að þar risi hús fyrir útvarpsrekstur. Hildur segir hafa legið ljóst fyrir um áratugaskeið að engin slík uppbygging væri fyrirhuguð. Eðlilegra hefði því verið fyrir borgina að leysa til sín lóðina enda hefðu fjármunir vegna lóðasölunnar getað komið sér vel fyrir borgarsjóð.

„Þessum byggingarheimildum til íbúðarhúsauppbyggingar í Efstaleiti var úthlutað árið 2015, snemma í borgarstjóratíð Dags B. Eggertssonar. Fyrir réttinn greiddi Ríkisútvarpið ekki hefðbundin gjöld en segja má að Ríkisútvarpið hafi hagnast um 2,2 milljarða að núvirði á gjörningnum,“ segir Hildur en tillagan var ekki afgreidd og segist Hildur vonast eftir að það verði gert á næsta fundi.

Heildarverðmæti þess byggingarréttar sem Reykjavíkurborg framseldi Ríkisútvarpinu án endurgjalds nam 1.966 m.kr. á verðlagi þess tíma og var kostnaður Ríkisútvarpsins við að gera lóðina söluhæfa 495 m.kr., segir meðal annars í greinagerð með tillögu sjálfstæðismanna. Verðmætunum hafi verið ráðstafað til niðurgreiðslu skulda Ríkisútvarpsins og hafi það afstýrt greiðsluþroti ríkismiðilsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert