Engar upplýsingar fást um skattafrádrátt sem fjölda fyrirtækja er veittur árlega vegna þróunar og rannsókna, en frádrátturinn getur numið tugum milljóna ár hvert hjá hverju fyrirtæki.
Í heild er um að ræða milljarðaupphæðir á hverju ári sem ekki fást upplýsingar um, en upphæðin í ár nemur 5,5 milljörðum.
Veita á 50 milljónum í aukið eftirlit sem á að skila sér í sparnaði upp á einn milljarð vegna minna svindls.
Eins og mbl.is greindi frá í vikunni fengu 65 fyrirtæki sérstakan skattafrádrátt vegna nýsköpunar upp á samtals 11,08 milljarða á þessu ári. Eru þetta þau fyrirtæki sem fara yfir 500 þúsund evra endurgreiðslumark (um 78 milljónir) sem miðað er við þegar Skatturinn birtir upplýsingar um endurgreiðslurnar.
Út af standa hins vegar 5,5 milljarðar, en samkvæmt fjárlögum er heildarupphæð skattafrádráttarins í ár 16,6 milljarðar. Á undanförnum árum hefur Skatturinn sjálfur varað við fyrirkomulagi og eftirliti með styrkjum og talið aukna ásókn stafa af því að fyrirtæki sem ekki eigi tilkall til stuðnings sæki um þá. Þá hefur OECD einnig gagnrýnt fyrirkomulagið harðlega.
Lögum um endurgreiðslur var breytt í vikunni, á lokadegi þingsins fyrir kosningar. Þrátt fyrir talsverða gagnrýni á núverandi fyrirkomulag og ummæli fjármálaráðherra um að hann teldi núverandi fyrirkomulag ekki eðlilegt var ákveðið að auka ekki gegnsæið, jafnvel þótt fordæmi væri fyrir slíku þegar kemur að fjölda annarra endurgreiðsla eða styrkja sem ríkið úthlutar á hverju ári, stórum sem smáum.
Þá var einnig fallið frá niðurskurðarhugmyndum á skattafrádráttinn, meðal annars eftir gagnrýni þeirra fyrirtækja sem hafa fengið hæstu greiðslurnar undanfarin ár. Þess í stað var ákveðið að veita fyrrnefndum 50 milljónum í aukið eftirlit.
Um talsverðar upphæðir er að ræða á hverju ári, en þegar mbl.is tók þær tölur saman fyrr á þessu ári fyrir sex ára tímabil kom í ljós að aðeins höfðu verið birtar upplýsingar um þau fyrirtæki sem þáðu samtals 17,2 milljarða af 37,4 milljörðum sem veittir höfðu verið í formi frádráttar.
Í fyrra var samtals 14,26 milljörðum veitt í skattafrádrátt vegna nýsköpunar, en endurgreiðslur til fyrirtækja sem fóru yfir fyrrnefnt viðmið námu samtals 9,6 milljörðum. Var því um 4,7 milljarða að ræða þá sem ekki var upplýst um. Við það bætast fyrrnefndir 5,5 milljarðar á þessu ári. Samkvæmt fjárlögum næsta árs, sem samþykkt voru í vikunni, er gert ráð fyrir að skattafrádrátturinn verði um 17,2 milljarðar. Ef miðað er við að upplýsingar um svipað hlutfall styrkja verði ekki veittar á næsta ári og síðustu ár verður því heildar upphæðin yfir níu ára tímabil komin í yfir 30 milljarða.
Í nefndaráliti með frumvarpinu, sem samþykkt var í vikunni, kemur fram að lækka hafi átt frádráttarhlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja úr 35% í 34% og fyrir stór fyrirtæki úr 25% niður í 22,5%, en áður hafði átt að lækka hlutfallið fyrir stór fyrirtæki niður í 15%. Einnig átti að lækka hámarksþak framdráttarbærs kostnaðar úr 1,1 milljarði í 1 milljarð. Það hefði þýtt að fyrir minni fyrirtæki hefði hámark frádráttar orðið 340 milljónir í stað 385 milljóna og fyrir stærri fyrirtæki 225 milljónir í stað 250 milljóna.
Mörg stór nýsköpunarfyrirtæki gerðu athugasemdir við þessar hugmyndir sem og að stytta ætti fjölda skipta sem styrkir væru veittir. Þar á meðal eru CCP, Coripharma, EpiEndo Pharmaceutical og Kerecis.
Hlustað var á þessa gagnrýni því í nefndarálitinu segir: „Meiri hlutinn hefur fjallað um framangreint og telur að svo stöddu ekki rétt að ráðast í umræddar lækkanir eins og kveðið er á um í frumvarpinu. Leggur því meiri hlutinn til breytingu þess efnis að endurgreiðsluhlutföll og þök á hámarkskostnaði haldist óbreytt í samræmi við fyrrnefnd bráðabirgðaákvæði.“
Einnig var ákveðið að falla frá hugmyndum um að takamarka endurgreiðslur þegar um er að ræða tengda aðila eða eigendur fyrirtækja. Ekki er ólíklegt að þarna hafi meðal annars verið að til þess að CCP hefur undanfarin ár fengið endurgreiðslur í gegnum tvö félög sem eru á vegum fyrirtækisins og þannig farið upp fyrir almennt hámark sem eitt fyrirtæki getur fengið. Reyndar er í frumvarpinu talað um möguleg eignartengsl þar sem einstaklingar séu tengdir sifjaréttarlegum böndum.
„Meiri hlutinn fjallaði um þennan lið ákvæðisins og telur ekki rétt að miðað sé við umrædd tengsl. Leggur meiri hlutinn því til breytingar þess efnis að umræddur liður falli brott,“ var niðurstaða nefndarinnar.
mbl.is reyndi fyrir tæplega þremur árum að fá upplýsingar um alla þá sem hljóta endurgreiðslu vegna nýsköpunar og vísaði til þess að athugasemda Skattsins og þeirrar staðreyndar að ríkið hefur upplýst um alla þá aðila sem fá endurgreiðslu vegna framleiðslu kvikmyndaefnis. Þá ákvað fjármálaráðherra einnig að upplýsa um alla fyrirtækjastyrki vegna kórónuveirufaraldursins. Upplýsingar um styrki til einkarekinna fjölmiðla eru einnig gerðir opinberir ár hvert, auk þess sem hægt er að nálgast skattaupplýsingar einstaklinga hjá Skattinum á ákveðnum tíma árs.
Síðar gerði OECD alvarlegar athugasemdir við eftirlit með styrkjunum og skort á gögnum. Í fjármálaáætlun ríkisins hefur jafnvel verið talað um að regluverkið í kringum framkvæmd styrkjanna sé óljóst og tekið fram að stuðningurinn sé umfangsmikill.
Hafnaði Skatturinn beiðni mbl.is um gögnin sem varð til þess að ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Tók nefndin sér 15 mánuði til að úrskurða í málinu. Var í úrskurðinum vísað í lög um tekjuskatt og að þagnarskylda hvíli yfir Skattinum. Þá er vísað í úrskurðarframkvæmd og að þetta ákvæði hafi sérstaka þagnarskyldu og gangi af þeirri ástæðu almennt framar rétti til aðgangs að gögnum samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga.
Því taldi nefndin að þagnarskyldan varðandi endurgreiðslunar og þar með styrkgreiðslur ríkisins sé sérgreind þar sem hún taki til upplýsinga um tekjur og efnahag skattaðila. Því sé Skattinum heimilt að synja beiðninni án þess að mat fari fram um það hvort hagsmunir almennings af upplýsingunum vegi þyngra en hagsmunir af því að þær fari leynt.
Í kjölfarið var Sigurður Ingi Jóhannsson fjármálaráðherra spurður hvort hann teldi núverandi fyrirkomulag á endurgreiðslunum vera eðlilegt. „Nei ég held ekki,“ var svar hans. „Mér finnst alveg koma vel til greina að það þyrfti að setja sérstaka lagaheimild sem myndi heimila Skattinum birtingu þessara upplýsinga sem er ekkert óalgengt þegar um styrki er að ræða,“ bætti Sigurður við.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sagðist taka undir ábendingar um gegnsæi og gagnrýni OECD á fyrirkomulagið. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins sagði samtökin einnig jákvæð fyrir aðgerðum til að auka gegnsæið.
Eins og mbl.is greindi frá í október varð niðurstaðan í frumvarpi Sigurðar Inga að ráðast ekki í breytingar sem lúta að auknu gegnsæi. Hins vegar var ákveðið að leggja til aukið eftirlit með endurgreiðslukerfinu.
Í umfjöllun Heimildarinnar frá í janúar kom meðal annars fram að aðeins einn starfsmaður hjá Skattinum sinnti eftirliti með styrkjunum. Hefði eftirlitið þó skilað sér í gjaldabreytingum hjá tugum fyrirtækja sem hefðu talið fram annan kostnað en nýsköpun og hefði það skilað sér í 210 milljóna minni útgjöldum ríkisins.
Í nýju fjárlagafrumvarpi sést að verja á 50 milljónum í aukið eftirlit með þessum endurgreiðslum, en búist er við því að þær muni aukast í 17,2 milljarða á komandi ári.
Í breytingu fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið kemur fram að aukning endurgreiðsla milli ára nemi 600 milljónum, en áður hafði hún verið áætluð 2,6 milljarðar. Helgast það meðal annars af því að búist er við þvi að aukið eftirlit dragi úr útgjöldum um einn milljarð og lækka á útgjaldavöxt um annan milljarð með sértækum aðgerðum.
Sé tekið mið af varnaðarorðum Skattsins frá árinu 2021, um að aukin aðsókn í styrkina kunni að stafa af því að fyrirtæki sem ekki eigi tilkall til stuðnings éu að sækja um þá, er ekki óvarlegt að ætla að þarna sé ríkið að horfa til þess að hið aukna eftirlit eigi að draga úr svindli sem talið er að viðgangist upp á einn milljarð.