Dóra Ósk Halldórsdóttir
Á framboðslistum til alþingiskosninganna í ár er að finna fólk á öllum aldri. Á listum sjálfstæðismanna er að finna bæði elsta og yngsta frambjóðandann í ár, 77 ár eru á milli þeirra í aldri.
Margir þekkja lífskúnstnerinn og rafvirkjann Helga Ólafsson á Raufarhöfn, en Helgi, sem er fæddur árið 1929, er elsti frambjóðandi á lista til alþingiskosninganna, 95 ára gamall. Helgi er í heiðurssæti númer 20 á lista sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi og segist stoltur af því að vera á lista fyrir sína menn.
Helgi hefur verið með eindæmum virkur og fram yfir nírætt tók hann að sér verkefni í rafvirkjun fyrir vini og vandamenn, auk þess að vera formaður Sjálfstæðisfélags Raufarhafnar.
Helgi segist alla tíð hafa verið pólitískur og segja má að hann hafi farið með himinskautum milli andstæðra skoðana í stjórnmálunum. Hann fór sem ungur maður að læra rafvirkjun á Siglufirði og þá breyttist ýmislegt í hans lífi.
„Ég fór snarruglaður sósíalisti til Siglufjarðar, en það átti eftir að breytast. Ég fór með félögum mínum að heimsækja alla flokkana og ræða málin. Eftir að hafa tekið þann rúnt myndaði ég mér mína sjálfstæðu skoðun og hef ekki vikið af henni síðan.”
Helgi segist vera stoltur af því að vera í framboði fyrir Sjálfstæðisflokkinn og telur að flokkurinn muni sækja sig í veðrið á lokametrunum. „Ég held að mínir menn muni koma sterkir inn á síðustu dögunum fyrir kosningar,“ segir hann.
„Ég ólst upp í fjölskyldu þar sem mikið var rætt um stjórnmál,“ segir Hafþór Ernir Ólason, sem er yngsti frambjóðandinn í ár, 18 ára. Hann skipar 12. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi en er á viðskiptabraut í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og býr í Garðinum.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.