Flestir sem hvergi finnast koma frá Sómalíu

Flestir þeirra 162 einstaklinga sem dvelja ólöglega hér á landi …
Flestir þeirra 162 einstaklinga sem dvelja ólöglega hér á landi og eru merktir „finnast ekki“ í LÖKE-kerfi lögreglunnar eru frá Sómalíu, eða 34. Samsett mynd/Colourbox

Flestir þeirra 162 einstaklinga sem dvelja ólöglega hér á landi og eru merktir „finnast ekki“ í LÖKE-kerfi lögreglunnar eru frá Sómalíu, eða 34. Eru þetta einstaklingar sem ríkislögreglustjóri hefur verkbeiðni um að fylgja úr landi.

Þar á eftir koma 22 Palestínumenn og 20 Írakar. Alls er óljóst hvernig þessi hópur framfleytir sér hér á landi og í honum eru á annan tug barna sem ekki sækja skóla.

Ríkislögreglustjóri hafði í lok október fylgt svo til jafn mörgum einstaklingum úr landi, sem ýmist höfðu fengið endanlega synjun á umsókn um dvalarleyfi eða eru hér í ólögmætri dvöl af öðrum ástæðum, og árin 2022 og 2023 samanlagt. 

Hópurinn listaður upp í sumar 

Þeir einstaklingar sem eru merktir „finnast ekki“ í LÖKE-kerfinu eru fólk sem ekki hefur fundist þegar kom að flutningi úr landi þrátt fyrir að ítrekað hafi verið reynt að ná í það. Einstaklingar úr þessum hópi hafa dvalið hér á landi í allt að fimm ár án þess að lögregla hafi náð að hafa uppi á þeim.

„Í sumar vorum við að lista þennan hóp upp og það var starfsmaður sem skoðaði hvar viðkomandi einstaklingur hafði síðast snertingu við kerfið í landinu. Þessi vinna setti þessi mál í fastari farveg og gefur betri möguleika á að hafa uppi á fólki,“ segir Marín Þórsdóttir, verkefnastjóri hjá heimferða- og fylgdardeild ríkislögreglustjóra.

Heimild/Ríkislögreglustjóri

Karlmenn í miklum meirihluta 

Hópurinn í heild samanstendur af 140 karlmönnum, 24 konum og 13 börnum, að því er fram kemur í svari við fyrirspurn mbl.is til ríkislögreglustjóra.

Að sögn Marínar sóttu 96 Sómalar um vernd árið 2022, 80 árið 2023 og 13 það sem af er ári. Þó að þeir séu flestir þeirra sem dvelja hér utan kerfa voru þeir í 4. sæti yfir fjölda þeirra sem sóttu um alþjóðlega vernd árið 2022, í 5. sæti árið 2023 og í 11. sæti árið 2024.

Samanburður á fylgd 2023 og 2024.
Samanburður á fylgd 2023 og 2024. Heimild/Ríkislögreglustjóri

Engar upplýsingar um samfélagslega ógn 

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra hefur embættið ekki upplýsingar um það hvort samfélaginu stafi ógn af þeim 162 sem ekki finnast. 

„Greiningardeild ríkislögreglustjóra metur hættu af einstaklingum sem grunur er um að séu ógn við almannaöryggi á Íslandi eða öryggi ríkisins.

Ekki liggja fyrir upplýsingar um að slík ógn stafi af umræddum einstaklingum, sem finnast ekki,“ segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is.

Fá ekki þjónustu og börnin ekki í skóla 

Ljóst er að þessi hópur fær enga þjónustu, þar sem hann er utan kerfa á Íslandi.

Að sögn Marínar veltir það upp þeirri spurningu hvernig þessi hópur sæki sér framfærslu hér á landi. Þá sé ljóst að þau þrettán börn sem eru hluti þessa hóps sæki ekki skólavist.

Ef svo væri myndi lögregla fá upplýsingar um það í hvaða skóla þau sæktu nám.

Marín Þórsdóttir, verkefnisstjóri hjá heimferða- og fylgdardeild ríkislögreglustjóra.
Marín Þórsdóttir, verkefnisstjóri hjá heimferða- og fylgdardeild ríkislögreglustjóra. Ljósmynd/Aðsend

Jafn mörgum fylgt úr landi og síðustu tvö árin á undan  

Ríkislögreglustjóri hafði í lok október fylgt svo til jafn mörgum úr landi það sem af er ári og árin 2022 og 2023 samanlagt. 288 hafði verið fylgt frá landi það sem af er ári í október en voru samtals 289 árin 2022 og 2023.

Í byrjun nóvember hafði ríkislögreglustjóri 235 verkbeiðnir um að flytja fólk úr landi. 

Skýringin á því hve miklu fleirum hefur verið fylgt úr landi í ár er að sögn Marínar ekki síst sú að starfsgildum hefur fjölgað sem sinna málaflokknum. Í fyrra voru um tíu manns sem sinntu málaflokknum en nú eru þeir á fjórða tug.

Þá varð sú breyting í nýjum útlendingalögum sem tóku gildi á árinu að þeir sem hefur verið synjað um alþjóðlega vernd fá einungis þjónustu frá ríkinu í 30 daga. Að sögn Marínar var ekkert slíkt ákvæði í fyrri lögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka