Þórður og Sólveig sýknuð á ný

Þórður Már Jóhannesson fjárfestir og Sólveig Guðrún Pétursdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, …
Þórður Már Jóhannesson fjárfestir og Sólveig Guðrún Pétursdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, voru sýknuð á ný. Samsett mynd

Landsréttur hefur staðfest sýknudóm yfir fjárfestinum Þórði Má Jóhannessyni og Sólveigu Guðrúnu Pétursdóttur, fyrrverandi dómsmálaráðherra, í Gnúpsmálinu svokallaða.

Vísar Landsréttur í dómi sínum í forsendur dóms héraðsdóms og segir að gögn málsins styðji ekki fullyrðingar forsvarsmanns félagsins Lyfjablóms um að beitt hefði verið blekkingum þannig að félagið hefði orðið fyrir tjóni upp á 2,3 milljarða.

Líkt og mbl.is hef­ur áður fjallað um er um að ræða einka­mál þar sem fé­lagið Lyfja­blóm (áður Björn Hall­gríms­son ehf.) krafði Þórð Má og Sól­veigu, sem sit­ur í óskiptu búi eig­in­manns síns heit­ins, Krist­ins Björns­son­ar, um sam­tals 2,3 millj­arða. Voru þau Þórður og Sól­veig sýknuð í héraði og nú aftur í Landsrétti. 

Félagið Björn Hallgrímsson átti á sínum tíma tæplega helmingshlut í fjár­fest­inga­fé­lag­inu Gnúpi og var eitt stærsta fjár­fest­inga­fé­lag lands­ins fyr­ir hrun. Var Krist­inn í for­svari fyr­ir fjöl­skyldu­fyr­ir­tækið.

Í annað skiptið sem málið fer fyrir Landsrétt

Málið hafði áður farið fyr­ir héraðsdómi árið 2019 þar sem Þórður og Sól­veig voru sýknuð á grund­velli tóm­læt­is og fyrn­ing­ar­laga.  

Þeirri niður­stöðu var áfrýjað til Lands­rétt­ar sem ómerkti dóm héraðsdóms þar sem ekki var talið unnt af hálfu Þórðar og Sól­veig­ar að haga mála­til­búnaði sín­um þannig að sak­ar­efni máls­ins yrði skipt, þ.e. um grund­völl skaðabóta­ábyrgðar ann­ars veg­ar og fyrn­ingu hins veg­ar, þar sem þau atriði féllu veru­lega sam­an. Af þeim sök­um var dóm­ur Héraðsdóms Reykja­vík­ur árið 2019 ómerkt­ur og mál­inu vísað aft­ur í hérað.

Þórður og Sólveig voru aftur sýknuð í héraði eftir að málið hlaut efnislega meðferð. 

Fyrir Landsrétti kom upp nokkuð sérstök staða þar sem all­ir dóm­ar­ar Lands­rétt­ar voru tald­ir van­hæf­ir til að dæma í mál­inu vegna starfa dóm­ar­ans Aðal­steins E. Jónas­son­ar fyr­ir Gnúp á sín­um tíma. Var rétturinn því skipaður settum dómurum, en þau voru Einar Karl Hallvarðsson, héraðsdómari og fyrrverandi ríkislögmaður, Hlynur Jónsson héraðsdómari og Sigrún Guðmundsdóttir, fyrrverandi héraðsdómari.

Þórður áður forstjóri Gnúps

Þórður hafði verið for­stjóri fé­lags­ins Gnúps, en krafa var gerð á Sól­veigu vegna dán­ar­bús eig­in­manns henn­ar, Krist­ins Björns­son­ar, sem hún sit­ur í óskiptu. Krist­inn hafði farið fyr­ir fjár­festa­hópi fjög­urra systkina sem áttu fé­lagið Björn Hall­gríms­son ehf. sem var einn af eig­end­um Gnúps, en fé­lagið hét eft­ir föður systkin­anna. Eft­ir fall Gnúps var nafni Björns Hall­gríms­son­ar breytt í Lyfja­blóm og höfðaði fé­lagið málið gegn Þórði og Sól­veigu.

Sonur Áslaugar Björnsdóttur, einnar systurinnar, Björn Thorsteinsson, keypti félagið Björn Hallgrímsson ehf. af slitabúi Glitnis eftir að bankinn hafði áður tekið félagið yfir. Hefur hann staðið í málaferlum vegna þess hvernig uppgjörið var sem og viðskipti áður en félagið var tekið yfir.

Kærði vitni í málinu fyrir ljúgvitni

Fyrr í dag sendi Björn, forsvarsmaður Lyfjablóms, frá sér tilkynningu þar sem hann sagði lögregluna hafa tekið til rannsóknar meint ljúgvitni tveggja vitna í málaferlum félagsins. Er þar um að ræða þá Helga F. Arn­ar­syni, end­ur­skoðanda hjá KPMG, og Stefáni Bergs­syni, fyrr­ver­andi end­ur­skoðanda hjá PwC, en Stefán starfaði fyr­ir Lyfja­blóm áður fyrr. Björn seg­ir í yf­ir­lýs­ingu að þetta sé gert vegna rök­studds gruns um að menn­irn­ir hafi borið ljúg­vitni fyr­ir dómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert