Stór áfangi: Vill aukafund hjá Seðlabanka

Finnbogi A. Hermannsson, forseti ASÍ.
Finnbogi A. Hermannsson, forseti ASÍ. mbl.is/Karítas

Finnbjörn A. Hermannsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir lækkun ársverðbólgunnar niður í 4,8% vera í takt við það sem sambandið bjóst við.

„Þetta styrkir í sessi þessa lækkun á stýrivöxtum og mun örugglega hvetja Seðlabankann til enn frekari dáða,“ segir Finnbjörn, spurður út í tíðindin.

Hann segir spá ASÍ hafa verið örlítið jákvæðari en engu að síður sé það stór áfangi að komast undir fimm prósentin.

„Seðlabankinn byrjaði of seint“

„Ég held að þetta sé komið til að vera og haldi áfram að lækka,“ bætir hann við spurður út í næstu mánuði hvað varðar verðbólguna.

„Þetta er í þá átt sem við reiknuðum með í kjarasamningunum síðustu. Svo hefur þetta verið að teiknast upp smátt og smátt. Við erum enn þá þeirrar skoðunar að Seðlabankinn byrjaði of seint á vaxtalækkunum og við hefðum átt að vera komin lengra niður. Núna segir þetta okkur að raunvextir eru enn hærri heldur en ella,“ segir Finnbjörn og hvetur Seðlabankann til að efna til aukafundar til að lækka stýrivextina enn frekar. Of langt sé að bíða til næstu stýrivaxtaákvörðunar í febrúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert