Aðgerð lögreglu æfing

Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði. Lögregluaðgerð þar reyndist fjölmenn æfing sem Helgi …
Stjórnsýsluhúsið á Ísafirði. Lögregluaðgerð þar reyndist fjölmenn æfing sem Helgi Jensson lögreglustjóri skýrði út fyrir mbl.is. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

„Málið var að við vorum í fíkniefna„bösti“, þannig að þegar þið höfðuð samband og spurðuð hvað væri í gangi var það það fyrsta sem mér datt í hug,“ segir Helgi Jensson, lögreglustjóri á Vestfjörðum, í samtali við mbl.is um broslegan misskilning sem upp kom á fimmtudag þegar mbl.is greindi frá stóraðgerð lögreglu á Ísafirði við stjórnsýsluhúsið þar í bænum.

Reyndist þar hins vegar um æfingu lögreglumanna að ræða sem að sögn lögreglustjóra þurfa að halda sér í góðri þjálfun og toppformi til að geta gripið inn í og komið þegnunum til bjargar er skúrkar láta til skarar skríða.

Endalausar æfingar

„Þetta var æfing í rými sem við fengum aðgang að í stjórnsýsluhúsinu og komu fleiri lögreglumenn að henni, okkar fólk,“ útskýrir lögreglustjóri.

„Ég vissi ekki nákvæmlega tímasetninguna á þessari æfingu þannig að mér datt hún alls ekki til hugar þegar þið voruð að spyrja,“ heldur hann áfram, „það eru endalausar æfingar, [lögregluþjónar] þurfa að skjóta úr byssum og æfa valdbeitingu með ýmsum hætti og þetta var bara hluti af því,“ segir Helgi.

Þurfa ekki að skjóta daglega

Hann segir þá valdbeitingarþjálfara, sem koma að þjálfun lögreglumanna, sjálfa vera starfandi lögreglumenn, embættin sæki sér ekki utanaðkomandi þjálfun þar.

„Sem betur fer þurfum við ekki að skjóta daglega eða standa í slagsmálum en mínir menn þurfa að æfa hlutina til að halda sér við og þannig er það hjá öllum lögregluembættum á landinu. Ég skil að fólki hafi þótt bera á þessu, þarna voru nokkrir lögreglubílar á virkum degi um miðjan dag en þetta var bara venjuleg rútína.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert