Viðar Guðjónsson
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kveðst ánægður með fyrstu tölurnar í alþingiskosningunum.
„Tilfinningin er sú að við séum að fá bylgju á síðustu metrunum sem muni fleyta okkur vel fram úr síðustu könnunum sem hafa verið okkur fremur mótdrægar alveg þar til undir það síðasta,“ segir Bjarni í samtali við mbl.is á kosningavöku flokksins.
Samkvæmt fyrstu tölum úr norðaustur- og suðurkjördæmum er flokkurinn með 21,4 prósent atkvæða í alþingiskosningunum. Talning stendur enn yfir en skoðanakannanir hafa sýnt fylgi flokksins undir 20 prósentum. Þessi niðurstaða er því fram úr þeim væntingum.
„Þannig að þetta verður mjög spennandi í kvöld og inn í nóttina,“ bætir formaðurinn við.
Flokkurinn er sá vinsælasti í Suðurkjördæmi samkvæmt þeim tölum sem liggja fyrir, en þar situr hann 22,5, með Flokk fólksins og Samfylkinguna á hælum sér, með 19,7 og 19,2 prósent.