Það er víða hvasst og snjókoma á norður- og austurhelmingi landsins og það er viðbúið að veður og færð geti sett strik í reikninginn fyrir þá sem ætla að mæta á kjörstað á þessum landsvæðum. Kosið er til Alþingis í dag og víða um land opnuðu kjörstaðir klukkan 9.
Gular veðurviðvaranir eru í gildi eða taka gildi síðar í dag á Norðurlandi eystra, Norðurlandi vestra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og Suðausturlandi.
Marcel de Vries, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að það snjói á Norður-og Austurlandi og það bæti í vind á Norðurlandi, Austurlandi og Suðausturlandi í dag og viðbúið sé að það verði víða blint og skafrenningur.
„Það mun draga aðeins úr snjókomunni á Norður- og Austurlandi seinni partinn í dag og þá verður éljagangur á þessum svæðum. Á Vestfjörðum verður minni úrkoma. Þar er nokkuð hvasst núna en það mun draga úr vindinum þar í kvöld,“ segir hann.
Hann segir að á morgun verði komið skaplegt veður en áfram verði talsverður vindur á Norðurlandi, Vestfjörðum og á Austurlandi fram eftir degi.