„Ég held hún verði klikkuð“

Stemmningin verður góð hjá Samfylkingunni í kvöld.
Stemmningin verður góð hjá Samfylkingunni í kvöld. Samsett mynd

„Ég er vel stemmd. Þetta er allt öðruvísi en maður upplifði árið 2021. Við höfum fengið mikinn meðbyr og maður vonar að það skili sér í kjörkassann en maður veit aldrei hvað kemur upp úr þeim.“

Þetta segir Lilja Hrönn Önnudóttir Hrannarsdóttir, forseti ungs jafnaðarfólks, í samtali við mbl.is á kosningavöku Samfylkingarinnar í Kolaportinu. Lilja Hrönn skipar jafnframt 8. sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Samfylkingin er búin að mælast stærsti flokkurinn í mörgum könnunum, bindur þú vonir við að það verði niðurstaðan í kvöld?

„Jú, maður bindur vonir við það og að við verðum í þeirri stöðu að geta myndað ríkisstjórn með flokkum sem eru með svipaða hugsjón og við eftir þessar kosningar.“

Þakkar öllum sem hafa aðstoðað í baráttunni

Kolaportið fer að fyllast af stuðningsfólki, hvernig býst þú við að stemningin verði hér í kvöld?

„Ég held hún verði klikkuð. Ég trúi ekki öðru. Fyrstu tölur eru ekki komnar og hér er nýtt fólk á hverju strái þannig ég býst ekki við öðru en geðveikri stemmningu og lofa henni eiginlega.“

Að lokum þakkar Lilja Hrönn öllum sem hafa tekið þátt í kosningabaráttunni með einum eða öðrum hætti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert