Landsmenn eru komnir í jólaskap núna fyrstu helgi aðventunnar og margvísleg dagskrá í boði úti um allt land.
Í Reykjavík hefur verið skreytt mikið í ár og búið er að kveikja á ljósum jólakattarins í Austurstræti. Jólamarkaður verður opnaður á Austurvelli í Reykjavík kl. 13 í dag og af því tilefni verða skemmtiatriði, m.a. Páll Óskar og Kvennakór HÍ, auk þess sem jólasveinar verða á vappi. Jóladalurinn í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum var opnaður í gær, allur skreyttur jólaljósum og í dag verður jólamarkaður Skógræktarfélags Reykjavíkur í Elliðavatnsbæ opnaður. Jólasmiðja og markaður er í Listasafni Reykjavíkur, jólabingó í Tjarnarbíói og margt fleira. Á morgun verða síðan jólaljósin tendruð á Oslóartrénu á Austurvelli.
Á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi tendrar bæjarstjórinn ljósin á jólatrénu kl. 11 í dag og þá verður opnaður þar markaður með 29 básum og jóla- og kolaportsstemning til klukkan fjögur.
Í Garðabæ er Aðventuhátíð bæjarins á Hönnunarsafni Íslands, Bókasafni Garðabæjar og göngugötunni á Garðatorgi í dag. Barnakór Sjálandsskóla og Jazztríó ásamt söngvurum syngja jólalög á göngugötunni frá kl. 13-14.30 og þar verður einnig pop-up-markaður. Einnig má nefna Óróasmiðju í Hönnunarsafninu, jólaföndur á bókasafninu og síðan er jólaball á Garðatorgi kl. 14.20 þar sem gengið er í kringum jólatréð og sungið.
Jólaþorpið í Hafnarfirði var opnað snemma í ár og verður í fullu fjöri um helgina og einnig er hægt að fara í ratleik í bænum þar sem teiknaðir jólasveinar gefa vísbendingar. Þá koma fram Jólakór Ungleikhússins, Kvennakór Hafnarfjarðar og Karlakórinn Þrestir. Á morgun er síðan hægt að fá jólamynd með sveinka í Hellisgerði milli kl. 14-17 og ljósin verða tendruð á sorgartrénu í Hellisgerði kl. 18 á morgun.
Á Akureyri verður jólatorgið á Ráðhústorgi opnað á morgun kl. 15 og þá verða kveikt ljósin á stóra jólatrénu með lúðrablæstri, kórasöng og jólasveinasprelli. Hægt verður að kaupa ýmsan jólavarning í skreyttum jólahúsum og hægt að stíga inn í Jólaævintýrið, sýningu í glugganum á Hafnarstræti 88.
Aðventuhátíðin á Húsavík hófst í gær og stendur yfir helgina. Þar er jólamarkaður í Safnahúsinu, lifandi tónlist bæði í Sjóminjasafninu og í Húsavíkurkirkju og mikil jólastemning í bænum.
Ljósin verða tendruð á jólatrénu á Silfurtorgi á Ísafirði í dag og leiklistarhópur Halldóru syngur jólalög. Kakó- og torgsala grunnskólanema hefst kl. 15.30 og hálftíma síðar mun hljómsveitin Villimenn spila jólalög.
Í Selfosskirkju er aðventukórnámskeið fyrir börn fædd 2019 og síðar í dag kl. 13 og Skáldastund í húsinu verður á Byggðasafni Árnesinga á morgun kl. 15 þar sem rithöfundar lesa úr nýjum bókum sínum.