Kosningadagur er runninn upp og opna kjörstaðir almennt klukkan 9 eða 10. Veðurspá er víða nokkuð tvísýn, en áfram er stefnt að því að kosningar fari fram um allt land.
Kjósendur þurfa að hafa ýmislegt í huga áður en haldið er á kjörstað, meðal annars að vera með skilríki. Hér verður farið yfir nokkur af helstu atriðunum sem gott er að huga að, bæði fyrir þá sem eru að kjósa í fyrsta skiptið og aðra þá sem oft hafa kosið.
Allir íslenskir ríkisborgarar sem eru með lögheimili á Íslandi og hafa náð 18 ára aldri á kjördag.
Þá hafa íslenskir ríkisborgarar, sem hafa átt lögheimili á Íslandi, kosningarrétt í 16 ár frá því að lögheimili er flutt af landinu. Nánari upplýsingar fyrir þá sem hafa búið lengur erlendis má finna á vefnum kosning.is
Erlendir ríkisborgarar eiga ekki kosningarrétt við alþingiskosningar og geta því ekki kosið, fyrir utan danska ríkisborgara sem voru búsettir á Íslandi 6. mars 1946 eða einhvern tímann á síðustu 10 árum fyrir þann tíma.
Ef einhver óvissa er um hvar þú ert skráður með búsetur og átt þar af leiðandi að kjósa er hægt að fletta sér upp á kjörskrá á vef Þjóðskrár hér. Fæst þá uppgefið heimilisfang, kjördæmi, kjörstaður og einnig kjördeild.
Á vefnum kosning.is er hægt að fletta upp öllum kjörstöðum á landinu og opnunartíma kjörstaða. Flestir kjörstaðir opna klukkan 9 að morgni, en einnig talsverður fjöldi kjörstaða sem opna klukkan 10. Þá opnar einn kjörstaður ekki fyrr en klukkan 11, en það er Lýsuhóll í Staðarsveit og Breiðuvík í Norðvesturkjördæmi.
Flestir kjörstaðir í fjölmennari kjördæmum loka klukkan 22 um kvöldið, en í minni kjördæmum loka margir kjörstaðir nokkuð fyrr, jafnvel klukkan 15.
Á höfuðborgarsvæðinu opna allir kjörstaðir klukkan 9 og er þeim lokað klukkan 22.
Finna má upplýsingar um alla kjörstaði á eftirfarandi vefsíðu.
Þegar komið er á kjörstað þarf að athuga í hvaða kjördeild þú ert skráður innan kjördæmisins, en kjósendum er raðaða í kjördeildir eftir heimilisfangi og má finna slíka lista á kjörstöðum.
Þegar komið er að réttri kjördeild þarf að framvísa skilríki og gefa upp heimilisfang. Gild skilríki eru meðal annars vegabréf, nafnskírteini, ökuskírteini eða rafrænt ökuskírteini. Best er að skilríki sé með mynd, en ef kjósandi á ekki skilríki er möguleg undanþága útlistuð á kosning.is
Kjósendur fá afhendan kjörseðil sem farið er með inn í kjörklefa og fá að kjósa leynilega.
Í kjörklefanum skal merkja með X í ferning fyrir framan nafn þess framboðs sem þú vilt kjósa. Hægt er að strika yfir eða breyta röðun frambjóðenda á þeim framboðslista sem þú kýst, en ekki má breyta röðun annarra lista en þeirra sem þú kýst. Ef það er gert er kjörseðillinn ógildur.
Að lokum er kjörseðillinn brotinn saman og settur í atkvæðakassa.
Ef þú gerir mistök er hægt að fá nýjan kjörseðil.
Þurfi kjósandi aðstoð við að kjósa getur hann óskað eftir aðstoð við það. Getur kjósandi komið með eigin aðstoðarmann eða fengið aðstoð frá starfsfólki kosninga. Nánari upplýsingar um það fyrirkomulag má finna á kosning.is.
Ekki má strika yfir eða breyta röðun frambjóðenda annarra lista en þess sem þú kýst, eins og nefnt er hér að ofan.
Ekki má skrifa á kjörseðilinn eða nota önnur tákn en X-ið sem notað er til að velja það framboð sem þú vilt kjósa.
Enginn má sjá hvernig þú greiddir atkvæði, enda er í stjórnarskrá kveðið á um að kosið skuli til þings í leynilegri kosningu.
Þeir sem ekki geta sótt kjörfund í sínu kjördæmi geta farið á skrifstofu sýslumanna víða um land. Þá ber hins vegar kjósandi ábyrgð á því að koma atkvæði sínu til skila til þess kjördæmis þar sem kjósandi er á kjörskrá. Nánari upplýsingar um opnunartíma hjá sýslumönnum á kjördag og um þetta fyrirkomulag má finna á vefsíðu sýslumanna hér.