Sólardagarnir fóru í að búa til snjó

Guðrún Ýr Eyfjörð og Magnús Jóhann Ragnarsson.
Guðrún Ýr Eyfjörð og Magnús Jóhann Ragnarsson. Mbl.is/Eyþór Árnason

Enn var vetur þegar Guðrún Ýr Eyfjörð, GDRN, og Magnús Jóhann Ragnarsson byrjuðu að leggja drög að jólaplötunni sinni, Nokkur jólaleg lög, fyrr á árinu en allur þungi vinnslunnar var í sumar, ef sumar skyldi þá kalla.

„Það hitti þannig á að Guðrún fékk pössun þessa þrjá sólardaga sem komu,“ segir Magnús Jóhann kíminn, „þannig að í þessar fáu klukkustundir sem sólin skein í sumar vorum við lokuð inni í stúdíói að búa til snjókorn.“

Þau hlæja bæði enda örlögin að sönnu grimm.

Segja má að Nokkur jólaleg lög eigi rætur í plötunni Tíu íslensk sönglög sem GDRN og Magnús Jóhann gáfu út árið 2022 og naut mikilla vinsælda.

„Þar svífur hugljúfur andi yfir vötnum og við spiluðum þá einmitt eina eða tvenna tónleika fyrir jólin sem varð til þess að margir fóru að nefna þetta við okkur, að gera jólaplötu,“ segir Magnús Jóhann. Ekkert var þó ákveðið strax en á þessu ári einhentu þau sér í verkið.

Ellefu íslensk jólalög gekk ekki

Upphaflega stóð til að kalla plötuna Tíu íslensk jólalög en þar sem lögin á henni urðu á endanum ellefu var horfið frá þeim áformum. „Ellefu íslensk jólalög hljómar ekki eins vel,“ segir Guðrún Ýr brosandi.

Niðurstaðan var Nokkur jólaleg lög sem þau eru bæði mjög ánægð með. „Þessi titill tekur sig mátulega alvarlega og á ágætlega við innihaldið, þarna eru þekktar jólaperlur í bland við lög sem eru kannski meira vetrarleg en jólaleg en allt passar þetta mjög vel saman við jólatréð,“ segir Magnús Jóhann og Guðrún Ýr bætir við að þau hafi leyft sér að fara í allar áttir við lagavalið. „Þetta eru bæði lög sem maður þekkir vel og hlustar oft á og lög sem minna hefur farið fyrir.“

Þau eru sammála um að heildarmyndin skipti miklu máli á plötu sem þessari og eru bæði mjög ánægð útkomuna.

Nánar er rætt við Guðrúnu Ýri og Magnús Jóhann í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.   

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert