„Staðan er nokkuð stöðug eins og er,“ segir Bragi Bjarnason, bæjarstjóri Árborgar, en vatnsyfirborð Ölfusár við Selfoss hefur haldið áfram að hækka síðan í gærkvöldi vegna klakastíflu.
Í samtali við blaðamann mbl.is segir Bragi almannavarnir fylgjast vel með rennslistölum í gegnum mæla en telji ekki að hætta steðji að eignum eins og er.
Náttúran sé þó auðvitað ólíkindatól og aðilar í viðbragðsstöðu ef verja þurfi eignir.
Áin sé komin alveg upp að bakkanum en sé eitthvað að ná að hreinsa sig og því bindi hann vonir við að ekkert tjón verði á eignum í kring.
„Við vonum að náttúran verði til friðs,“ segir Bragi, enda sé í mörg horn að líta í dag vegna náttúruafla og Alþingiskosninga.
„En hún er tignarleg þegar hún er orðin svona ísmikil.“