Jóhann Páll: Þurfum að standa okkur í stykkinu

Jóhann Páll Jóhannsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, og Ragna …
Jóhann Páll Jóhannsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, og Ragna Sigurðardóttir, sem skipar 2. sæti listans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta lítur vel út. Það er ekki búið að telja öll atkvæðin en þetta lítur vel út enn sem komið er.“

Þetta segir Jóhann Páll Jóhannsson, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, í samtali við mbl.is á kosningavöku flokksins í Kolaportinu í kvöld.

„Nú þurfum við bara að standa okkur í stykkinu og vinna vel úr þessum niðurstöðum þannig að það sé hægt að mynda almennilega ríkisstjórn hérna á Íslandi.“

Samfylkingin leiðir í Reykjavíkurkjördæmi suður með 5.057 at­kvæði af 21.949 töld­um.

Telur líklegt að Samfylkingin fari í ríkisstjórn

Hvernig lítur þú á þessar niðurstöður?

„Þetta er ákall um breytingar. Þeir flokkar sem lögðu áherslu á að styðja við tekjulægri hópa, bætta geðheilbrigðisþjónustu, sterkara heilbrigðiskerfi á Íslandi, þeir eru að uppskera í þessum kosningum,“ segir Jóhann Páll.

Telur þú líklegt að Samfylkingin verði í næstu ríkisstjórn?

„Já, það er það sem við höfum stefnt að og við erum tilbúin og til þjónustu reiðubúin. Eins og frægt er orðið erum við plan,“ bætir Jóhann við.

Ánægður með listann

Jóhann segir það ekki koma sér á óvart að listinn sinn í kjördæminu hafi hlotið sterkan hljómgrunn meðal kjósenda. Hann segist ánægður með listann. 

„Við erum með Rögnu Sigurðardóttur, lækni og baráttukonu fyrir bættu heilbrigðiskerfi. Í þriðja sæti erum við með Kristján Þórð Snæbjarnarson, iðnaðarmann, formann Rafiðnaðarsambandsins og fyrrverandi forseta Alþýðusambandsins, og Sigurþóru Bergsdóttur en hún hefur byggt upp Bergið Headspace.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert