„Þjóðin er byrjuð að svara fyrir sig“

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, ávarpaði gesti á kosningavöku flokksins.
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, ávarpaði gesti á kosningavöku flokksins. mbl.is/Eyþór

„Það er augljóst ákall um breytingar og búið að vera í langan tíma og það er það sem er að koma upp úr kössunum.“

Þetta sagði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar þegar hún ávarpaði stuðningsfólk Samfylkingarinnar á kosningavöku flokksins í Kolaportinu í kvöld.

„Það verða breytingar á stjórn landsmála og það er augljóst. Það er ekki búið að telja og við erum með fæturna á jörðinni en þetta lítur vel út,“ sagði Kristrún.

Samfylkingin leiðir í Norðausturkjördæmi og hefur fengið 4.350 atkvæði af 20.742 töldum.

Stolt af kraftinum í jafnaðarfólki

„Ég vil bara segja hvað ég er þakklát fyrir ykkur öll. Ég er ótrúlega þakklát fyrir öll. Þetta eru búnar að vera ótrúlegar vikur og þvílíkur kraftur í jafnaðarfólki og þvílíkur kraftur í frambjóðendum.“

„Þetta er fáránlega spennandi en ég er svo stolt af okkur öllum og hvað við erum búin að áorka nú þegar,“ sagði Kristrún.

„Nú verðum við bara að taka því sem kemur og þjóðin er byrjuð að svara fyrir sig. Sjáum hvað kemur upp úr kössunum í nótt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert