Hámarksdvalarleyfi lengt í fimm ár

Breytingin á við um þá sem þegar hafa fengið vernd …
Breytingin á við um þá sem þegar hafa fengið vernd og þá sem fá slíka vernd í framtíðinni. mbl.is/Óttar Geirsson

Alþingi hefur samþykkt frumvarp dómsmálaráðherra um að lengja hámarkstíma dvalarleyfa vegna verndar í kjölfar fjöldaflótta úr þremur árum í fimm ár.

Breytingin á við um þá sem hafa þegar fengið sameiginlega vernd á grundvelli fjöldaflótta og þá sem kunna að fá slíka vernd í framtíðinni, að segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Tilgangur verndarkerfisins er að veita einstaklingum tímabundna vernd gegn ofsóknum eða stríði. Sameiginlegri vernd vegna fjöldaflótta er ætlað sem viðbragð við tímabundnum aðstæðum þar sem hópur einstaklinga flýr afmarkað landsvæði og þarf á vernd að halda. Sameiginleg vernd er undantekning frá þeirri meginreglu að umsókn um alþjóðlega vernd skuli hljóta einstaklingsbundna efnismeðferð hjá stjórnvöldum,“ segir í tilkynningunni. 

Mál vegna sameiginlegrar verndar séu frábrugðin að því leyti að slakað sé á sönnunarkröfum og rannsóknarskyldu stjórnvalda. Fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd í slíkum aðstæðum geti verið ófyrirsjáanlegur sem kalli á sveigjanlegar reglur og einfalt umsóknarferli.

Gildistíminn framlengdur um eitt ár

Innrásarstríð Rússlands í Úkraínu leiddi til þess að umsóknum úkraínskra ríkisborgara um alþjóðlega vernd á Íslandi og í Evrópu fjölgaði verulega. Í kjölfarið beittu íslensk stjórnvöld, samhliða aðildarríkjum Evrópusambandsins og samstarfsríkjum Schengen, Noregi, Sviss og Liechtenstein, heimild ráðherra sem fjallar um sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta, í eitt ár. Fá þeir einstaklingar sem falla undir ákvæðið útgefið dvalarleyfi hér á landi.

Einkum er um að ræða mál úkraínskra ríkisborgara, sem voru búsettir í Úkraínu fyrir innrásina, og fjölskyldna þeirra.

Árið 2022 fengu 2.315 einstaklingar sameiginlega vernd á grundvelli laganna og 1.556 á árinu 2023. Vegna þessa tók dómsmálaráðherra ákvörðun 1. febrúar 2023 um að framlengja gildistíma ákvörðunar ráðherra um eitt ár, til og með 3. mars 2024. Hinn 22. febrúar 2024 ákvað ráðherra að framlengja gildistímann um ár til viðbótar, eða til og með 2. mars 2025. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka