Lítið ber á vanskilum og greiðsluerfiðleikum

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fjármálakerfið hérlendis stendur traustum fótum. Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægra banka er sterk og aðgengi að markaðsfjármögnun gott.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar Seðlabanka Íslands. 

„Hátt raunvaxtastig samhliða hægari vexti efnahagsumsvifa gæti skapað áskoranir fyrir fjármálakerfið á næstu misserum. Þá eru einnig viðsjárverðir tímar á alþjóðavettvangi sem gætu haft ófyrirséð áhrif. Enn sem komið er ber lítið á vanskilum eða greiðsluerfiðleikum bæði hjá heimilum og fyrirtækjum,“ segir í yfirlýsingunni.

Staðfesti kerfislegt mikilvægi banka

Fram kemur einnig að nefndin hafi lokið árlegu endurmati á kerfislega mikilvægum fjármálafyrirtækjum. Nefndin staðfesti kerfislegt mikilvægi Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.

Nefndin hefur sömuleiðis lokið reglubundnu endurmati kerfisáhættuauka og eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki. Nefndin ákvað að lækka gildi kerfisáhættuaukans úr 3% í 2%. Einnig ákvað hún að hækka eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki úr 2% í 3%.

„Fjármálastöðugleikanefnd mun sem fyrr beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti,“ segir einnig í yfirlýsingunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka