Bæjarráð Akraness fagnar ákvörðun Bjarna Benediktssonar, starfandi matvælaráðherra, um að gefa út leyfi fyrir hvalveiðum.
Ráðið segir framtíð hvalveiða skipta samfélagið á Akranesi miklu máli. Þá sé afar mikilvægt að skapa fyrirsjáanleika í veiðum og vinnslu hvals.
Í tilkynningu frá bæjarráði er bent á að lög séu í gildi um hvalveiðar sem byggi á ráðgjöf frá Hafrannsóknarstofnun.
Skortur á fyrirsjáanleika í hvalveiðum er sagður hafa skapað verulegt tjón fyrir marga.
„Stöðvun hvalveiða við upphaf vertíðar 2023 var reiðarslag fyrir fjölda starfsmanna Hvals hf, sem höfðu ráðið sig til starfa og starfsemi fyrirtækisins, sem bitnaði hart á afkomu fjölda fólks og þar af leiðandi á samfélaginu á Akranesi,“ segir í tilkynningu.
Bæjarstjórn Akraness mótmælti ákvörðun Svandísar Svavarsdóttur, þáverandi matvælaráðherra, að verða ekki við útgáfu leyfis fyrir hvalveiðum sumarið 2023.