Ferðamennirnir sex sem voru fluttir á slysadeild eftir rútuslysið við Hala í Suðursveit í gærkvöldi hafa verið útskrifaðir af sjúkrahúsi.
Þetta segir Stefán Þór Gunnarsson, einn af eigendum Nicetravel, aðspurður.
Ferðamennirnir voru í rútu ferðaþjónustufyrirtækisins þegar slysið varð, á leið frá Reykjavík til Jökulsárlóns þar sem þeir ætluðu að gista.
„Þetta var hræðilegt í gær þegar símtalið kom,“ segir Stefán Þór og á við þegar þeim var tilkynnt um slysið og talað að um að þyrla Landhelgisgæslunnar væri á leiðinni á staðinn.
„Ég held að allir séu sammála um að þetta hafi farið nokkuð vel miðað við aðstæður.“
Spurður hvort einhverjir hafi kastast út úr rútunni í slysinu segir Stefán Þór það óstaðfest. Ökumenn fyrirtækisins brýni aftur á móti sífellt fyrir ferðamönnum að spenna á sig beltin, til að mynda eftir hvert stopp.
„Þetta er eilífðarbarningur,“ bætir hann við.
19 voru í rútunni, auk bílstjórans, frá ýmsum þjóðernum, meðal annars Bandaríkjunum. Rútan fór út af veginum í beygju í hálku og fór heilan hring.
„Þetta er erfitt svæði og vindasamt,“ segir Stefán Þór jafnframt.