Rannsókn á láti hjóna á áttræðisaldri sem fundust látin á heimili sínu í Neskaupstað í ágúst virðist að mestu lokið samkvæmt því sem fram kemur í áfrýjuðum úrskurði héraðsdóms um gæsluvarðhald í málinu.
Útlit er fyrir að rannsókninni ljúki innan skamms þegar allar upplýsingar liggja fyrir.
„Af gögnum málsins verður ráðið að rannsókn þess sé að mestu lokið en skýrslur munu hafa verið teknar af öllum vitnum og vettvangsrannsókn lokið,“ segir í úrskurðinum.
„Þá munu niðurstöður lífsýnarannsókna liggja fyrir en beðið er eftir niðurstöðum blóðferlaskýrslu tæknideildar lögreglu sem eru að sögn sóknaraðila væntanlegar á næstu dögum. Skýrslur um krufningu liggja ekki fyrir en munu jafnframt vera væntanlegar á næstu dögum.“
Karlmaður er grunaður um að hafa valdið dauða fólksins og hefur verið vistaður á viðeigandi stofnun eins og gert hefur verið undanfarið.
Í gögnunum kemur fram að þegar lögregla tók manninn höndum á bifreið hjónanna í Reykjavík hafi hann verið með eigur þeirra í fórum sínum, til að mynda bankakort. Auk þess hafi föt hans verið blóðug.
„Mikið hafi verið af ætluðu storknuðu blóði á fatnaði og skóm,“ segir í úrskurðinum.
Á heimili hjónanna höfðu lögreglumenn orðið þess varir að bifreið þeirra var horfin.
Maðurinn viðurkenndi við yfirheyrslur að hafa verið á heimili hjónanna í Neskaupstað en neitaði því að hafa verið valdur að dauða þeirra. Þau hafi þegar verið látin. Útskýringar hins grunaða á því hvers vegna hann hafi ekki tilkynnt um slasað eða látið fólk þóttu ekki trúverðugar.
Að sögn vitna sást maðurinn við hús hjónanna að kvöldi 21. ágúst. Vitni segjast skömmu síðar hafa heyrt „þung bank-högg“ úr íbúðinni. Sjúkraflutningamenn komu fyrstir á vettvang og greindu lögreglunni frá því að fólkið væri greinilega látið.
Hinn grunaði verður áfram vistaður á viðeigandi stofnun til 20. desember. Landsréttur staðfesti þar með úrskurð héraðsdóms frá því 27. nóvember en verjandi mannsins skaut úrskurðinum til Landsréttar. Krafðist maðurinn þess að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi og til vara að tíminn yrði styttur.
Í niðurstöðu Landsréttar kemur fram að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.
Þá stríði það gegn réttarvitund almennings ef einstaklingur sem sterkur grunur leikur á um að hafi framið svo alvarlegt brot gangi laus meðan mál hans er til meðferðar í réttarvörslukerfinu.
Að mati geðlæknis benda viðtöl við manninn til þess að hann sé hættulegur öðrum vegna veikinda og þurfi að vistast á viðeigandi stofnun.
Hann þurfi að sæta öruggri gæslu.
„Hann þurfi jafnframt að fá sérhæfða meðferð til lengri tíma í ljós alvarleika veikinda sinna og hversu langvinn og inngróin þau virðast vera,“ segir meðal annars í úrskurðinum.