Alls hafa 62 einstaklingar leitað á bráðamóttöku Landspítalans vegna slysa tengdum hálku síðan á mánudaginn.
16 manns hafa leitað á bráðamóttökuna í dag vegna hálkuslysa.
Þetta segir Hjalti Már Björnsson, yfirlæknir á bráðamóttökunni, í svari við fyrirspurn mbl.is, og miðar þar við klukkan 15 í dag.
Í flestum tilfellum er um minniháttar áverka að ræða en nokkuð hefur þó verið um beinbrot og höfuðhögg.
Tveir einstaklingar hafa þurft að leggjast inn á spítalann vegna hálkuslysanna.
Hjalti Már segir mjög mikið álag á bráðamóttökunni þessa stundina, þar sem á annað hundrað manns eru til meðferðar. Þar af eru 40 manns sem ekki hefur fundist pláss fyrir á legudeildum Landspítalans.
„Við minnum á að fara varlega í hálkunni og nota mannbrodda,“ segir hann.