Indriði Ingi Stefánsson, sem var í fimmta sæti á lista Pírata í Suðvesturkjördæmi í nýafstöðnum kosningum, hefur sent inn kæru til Alþingis um ógildingu þeirra.
Í kærunni segir hann alla framkvæmd kosninganna og atkvæðagreiðslu utan kjörfundar hafa borið þess merki að kosningar hefðu borið skyndilega að.
„Það eru það mörg atriði að það sé að mínu mati hægt að fullyrða að allt sé í lagi,” segir Indriði, spurður út í kæruna.
Þar kemur fram að nokkrir gallar hafi verið á framkvæmd kosninganna, misalvarlegir. Hann tilgreinir í kærunni sjö galla á framkvæmd kosninganna:
Indriði nefnir í kærunni að listinn yfir ágalla á framkvæmd kosninganna sé engan veginn tæmandi. Til að mynda hafi tímalengd talningar í Suðvesturkjördæmi verið óboðleg.
„Undirritaður var á talningarstað í 15 klukkutíma án þess að hafa almennilegt aðgengi að mat, þar sem yfirkjörstjórn útvegaði ekki annan mat en dagsgamlar snittur og sælgæti. Á kjördag er jafnframt mikið að gera hjá umboðsmönnum og fá tækifæri til að nærast. Framkvæmdin á að styðja við starf umboðsmanna og þetta er varla boðlegt,“ skrifar hann og nefnir í lokin:
„Ég ítreka að þetta voru ekki einu gallarnir á kosningum og um aðra er bókað í gerðabók en að ofangreindu ætti að ógilda kosningarnar og kjósa aftur.“
Í samtali við mbl.is segir hann að afstaða verður ekki tekin til kærunnar fyrr en landskjörstjórn hefur staðfest kosningarnar.