„Þetta er bara reiðarslag“

Sjálfstæðisflokkurinn þarf í naflaskoðun að loknum kosningum en má þó ágætlega vel við una úr því sem komið var. Þetta er mat Söndru Hlífar Ocares, varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og lögfræðings.

Stefán Pálsson varaborgarfulltrúi VG skefur ekki af því heldur.

Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála þar sem uppgjör kosninganna heldur áfram.

„Fullkomlega glatað“

„Þetta var fullkomlega glatað. Það sem ég get huggað mig við er tvennt. Annars vegar svona Þórðargleði getur verið góð til þess að græða sárin. Hlakka þá bara yfir óförum annarra, sælt er sameiginlegt skipbrot, og hins vegar það að ég hef mikinn áhuga á og ég get bara snúið mér að því og gefið pólitískum spjallþáttum frí nema rétt þegar ég er kallaður í þá,“ segir Stefán Pálsson þegar hann ræðir stöðu VG að loknum kosningum.

Stefán Pálsson er einn af helstu trúnaðarmönnum VG. Hann er …
Stefán Pálsson er einn af helstu trúnaðarmönnum VG. Hann er ómyrkur í máli. mbl.is/María Matthíasdóttir

Nauðsynlegt að bretta upp ermar

Og hann bætir við:

„En ég meina, þetta er bara reiðarslag fyrir róttæka vinstrið á Ísandi og sú staðreynd, því það hefði verið svo auðvelt og þægilegt að segja, við vorum með þetta stjórnarsamstarf eða þarna var farið illa með okkur, ef menn hefðu efnt til kosninga síðar eða eitthvað slíkt þá verður ekki litið fram hjá því að flokkar á vinstri ásnum, hvort sem þeir voru í stjórn eða stjórnarandstöðu eða yfir höfuð ekki inni á þingi, þeir skoruðu bara langt undir sínum væntingum og þá þarf bara að bretta upp ermarnar,“ segir Stefán Pálsson þegar hann ræðir stöðu VG að loknum kosningum.

Hann segir að allar hugmyndir um fastafylgi flokkanna sé úr sögunni. Gríðarlegar breytingar geti orðið á stöðu flokka á skömmum tíma.

Viðtalið við Söndru Hlíf og Stefán má sjá í spilaranum hér að neðan. Ásamt þeim er gestur þáttarins Valgeir Magnússon, eða Valli sport eins og hann er oftast kallaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert