22 ára maður var í Landsrétti dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun á fyrrverandi kærasta sínum. Er hann sagður í dómi hafa nauðgað fyrrverandi kærastanum í endaþarm og ekki sinnt því þegar hann var ítrekað beðinn um að hætta því.
Fram kemur fyrir dómi að sannað þótti að þolandi hafi verið tekinn hálstaki. Hinn dæmdi maður neitaði að hafa tekið brotaþola hálstaki og kvaðst ekki kunna skýringu á þessum áverka.
Hann neitaði jafnframt að fyrrverandi kærastinn hefði í orði eða verki gefið í skyn að hann væri mótfallinn kynmökum umrætt kvöld en atvikið átti sér stað í janúar árið 2021.
Sá sem sakfelldur var í málinu hefur ekki áður hlotið refsidóm.
Brotamaðurinn var undir tvítugu þegar umrætt atvik átti sér stað. Höfðu þeir fyrrum kærastinn verið kærustupar en hætt saman fyrir um einu og hálfu ári fyrir atvikið. Höfðu þeir hist á um tveggja mánaða fresti til að stunda kynlíf en umrætt kvöld var brotamaðurinn að aðstoða brotaþola við að gera við tölvu.
Eftir árangurslausa viðgerð ýtti brotamaðurinn fyrrverandi kærastanum í rúm og skeytti engu um það þegar hann var beðinn um að snerta ekki fyrrum ástmann sinn. Eftir nokkra atlögu hafi brotamaðurinn svo náð vilja sínum fram áður en hann yfirgaf heimili þolanda í skyndi.
Landsréttur þyngdi dóm héraðsdóms í málinu. Héraðsdómur dæmdi manninn einnig í tveggja ára fangelsi en þótti ástæða til að binda stærstan hluta dómsins skilorði. Landsréttur gerði það hins vegar ekki.
Í héraðsdómi kemur fram að báðir mennirnir hefðu svipaða frásögn af atvikinu. Hins vegar hafi málið snúist um það hvort samþykki hafi legið fyrir.
Í héraðsdómi var hinum ákærða gert að greiða tvær milljónir króna í miskabætur auk málskostnaðar.