Segja kjarasamninginn andstæðan lögum

Stéttarfélagið Efling segir kjarasamning stéttarfélagsins Virðingar og SVEIT, samtaka fyrirtækja …
Stéttarfélagið Efling segir kjarasamning stéttarfélagsins Virðingar og SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, ganga gegn ákvæðum fjölda laga. Á myndinni er Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Samsett mynd/mbl.is

Stéttarfélagið Efling segir kjarasamning stéttarfélagsins Virðingar og SVEIT, samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, ganga gegn ákvæðum fjölda laga og fullnægja ekki öðrum lagaákvæðum. Einnig megi færa rök fyrir að hann brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Þetta kemur fram í nýrri tilkynningu frá Eflingu.

Rannsökuðu kjarasamning Virðingar og SVEIT

„Sérfræðingar Eflingar í kjarasamningsgerð, samningarétti og lögum rannsökuðu kjarasamning Virðingar og SVEIT, auk þess sem utanaðkomandi lögfræðilegs álits var aflað. Niðurstaða rannsóknarinnar er sú að kjarasamningurinn gengur gegn ákvæðum fjölda laga og fullnægir ekki öðrum lagaákvæðum, auk þess sem færa má fyrir því sannfærandi rök að hann brjóti gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar,“ segir í tilkynningunni.

Segir þar enn fremur að launataxtar samkvæmt kjarasamningnum verði lægri en launataxtar samkvæmt kjarasamningi Eflingar og SA, samtaka atvinnulífsins, frá og með 1. febrúar 2025.

Ofan á það muni breytingar á vinnutíma og vaktaálagi í samningi Virðingar og SVEIT leiða almennt til kjaraskerðingar, miðað við samning Eflingar og SA.

Ósamrýmanlegur við lög um starfskjör launafólks

„Efling hefur lagt mat á kjarasamning Virðingar og SVEIT og borið saman við ákvæði samnings Eflingar og SA frá því í vor. Niðurstaðan er að fyrrnefndi kjarasamningurinn er ósamrýmanlegur við lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sem og lög um stéttarfélög og vinnudeilur.

Þá eru jafnframt ákvæði í samningnum sem kunna að vera gagnstæð eða fullnægja ekki skilyrðum ýmissa laga. Þar á meðal eru lög um rétt verkafólks til uppsagnarréttar og til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla; lög um 40 stunda vinnuviku; lög um orlof; lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.“

Í ósamræmi við gildandi lágmarksrétt

Í tilkynningu Eflingar kemur m.a. fram að í ákvæði kjarasamnings Virðingar og SVEIT um vinnutíma sé dagvinna skilgreind frá klukkan 8-20 sem er þremur tímum lengur en í kjarasamningi Eflingar og SA, þar sem dagvinnu lýkur klukkan 17.

Þá bendir félagið einnig á að vinna frá 8-16 á laugardögum teljist til dagvinnutíma í kjarasamningi Virðingar og SVEIT.

„Það er bæði í ósamræmi við gildandi lágmarksrétt og einnig brot á lögum um 40 stunda vinnuviku frá árinu 1971, þar sem gert er ráð fyrir að dagvinnutímabil miði við virka daga.“

Segir Efling að það sé því verulegur munur á launagreiðslum í vaktavinnu þegar horft er á samningana tvo þar sem vaktaálagið samkvæmt kjarasamningnum sé þannig ekkert á tímabilinu 17-20 á virkum dögum á meðan það er 33% í kjarasamningi Eflingar á þessum tímum.

Þá nefnir félagið einnig að þegar fjallað er um álag á helgi- og stórhátíðardögum í kjarasamningi Virðingar sé hvergi minnst á skírdag sem sé brot á lögum um 40 stunda vinnuviku.

Skilgreining á þjálfunartíma útvíkkuð

Félagið nefnir einnig að lakari réttur sé til desemberuppbótar í Virðingarsamningnum og að skilgreiningin á þjálfunartíma sé útvíkkuð og gerð að aldursmismunun.

„Ákvæðið segir að nýir starfsmenn á aldrinum 18-21 árs fái greidd sem nemur 95% af heildarlaunum. Þannig getur „þjálfunartími“ hjá ungum starfsmanni orðið allt að þrjú ár að lengd. Í kjarasamningi Eflingar og SA er hins vegar gert ráð fyrir að þjálfunartími geti verið mest 500 klst. og mest 300 klst. hjá sama atvinnurekanda.

Þá má velta því upp hvort að ákvæði þetta í samningi Virðingar og SVEIT samrýmist annars vegar lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði og hins vegar jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar,“ segir í tilkynningunni.

Veikari ákvæði um hvíldartíma

Að sögn Eflingar er ekki lagt bann við að skipuleggja vinnutíma þannig að hann fari umfram 13 klukkustundir í Virðingarsamningnum þar sem fjallað er um hvíldartíma, ólíkt því sem finna má í Eflingarsamningnum.

Einnig sé ekki ákvæði um að óheimilt sé að skerða 8 klukkustunda samfellda hvíld eða að vinnulotu megi aðeins lengja í 16 klukkustundir.

Þá sé ekki tekið fram að uppsafnaður frítökuréttur skuli koma fram á launaseðli.

Foreldrar réttindalausir fyrstu sex mánuði

Félagið nefnir að í Virðingarsamningnum sé starfsmanni skylt að taka orlof ef yfirmaður hans skipar svo og veltir félagið fyrir sér hvort ákvæðið gangi gegn ákvæðum laga um orlof þar sem kveðið er á um að atvinnurekandi ákveði í samráði við starfsmann hvenær orlof skuli veitt.

Einnig nefnir félagið að samkvæmt Virðingarsamningnum séu foreldrar réttindalausir hvað varði rétt til að hlynna að sjúkum börnum sínum fyrstu sex mánuðina í starfi hjá sama atvinnurekanda.

Þá sé ekki fjallað um greiðslu sjúkrakostnaðar í Virðingarsamningnum verði starfsmaður fyrir vinnuslysi en þar komi aðeins fram að atvinnurekandi greiði flutning á sjúkrahús eða heilsugæslu.

Vísað til laga sem hafa verið felld úr gildi

„Í ákvæði kjarasamnings Virðingar og SVEIT er lýtur að fæðingarorlofi er vísað til eldri laga um fæðingar- og foreldraorlof frá árinu 2000, sem felld hafa verið úr gildi. Þá er ekki kveðið á um rétt starfsfólks til að fara í mæðraskoðun á vinnutíma án frádráttar frá föstum launum. Um slíkt er kveðið á í kjarasamningi Eflingar og SA, sem og öðrum kjarasamningum,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir félagið uppsagnarfrest skertan í Virðingarsamningnum og nefnir að ekki sé kveðið á í samningnum að uppsagnarfrestur miðist við mánaðamót, ólíkt því sem er í kjarasamningi Eflingar og SA.

Að lokum nefnir Efling að í Virðingarsamningnum sé réttur trúnaðarmanna einnig skertur og að ekki fáist séð af samþykktum Virðingar að starfrækja eigi sjúkrasjóð eða starfsmenntasjóð, aðeins orlofssjóð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert