Virkni í Bárðarbungu hefur ekki verið meiri síðan 2015, þegar stærsta eldgos síðari alda stóð yfir í Holuhrauni.
Rétt fyrir kl. 2 í nótt reið yfir jarðskjálfti 5,1 að stærð í Bárðarbunguöskjunni í Vatnajökli.
Skjálftar af þessari stærð eru orðnir tiltölulega algengir á svæðinu. Fjórir skjálftar um eða yfir 5 að stærð hafa riðið yfir í Bárðarbungu í ár; einn í apríl, annar í september, sá þriðji í október og sá fjórði nú í nótt.
„Þetta ár er virkasta árið síðan 2015,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is. Eldstöðin hefur því ekki verið virkari síðan í Holuhraunsgosinu en þá rann mesta hraun sem runnið hefur á Íslandi síðan í Skaftáreldum 1783-1784.
Holuhraunsgosið er að sögn Páls „stærsta gos sem hefur komið á seinni öldum“.
„Bárðarbunga er sennilega okkar öflugasta eldstöð og hún hefur sýnt alveg frá 1974 ákveðna virkni sem segir okkur ákveðna sögu,“ segir Páll. Hluti af þeirri sögu er eldgosið í Gjálp 1996 og fyrrnefnt Holuhraunsgosið sem stóð yfir frá ágúst 2014 til janúar 2015. Páll segir skjálftana tengjast hreyfingu í öskju undir jöklinum.
„Askjan er búin að vera að rísa síðan gosinu lauk í Holuhrauni, en meðan á því stóð þá seig hún og því fylgdu miklir skjálftar,“ segir hann.
„Síðan róaðist [skjálftavirknin] eitthvað þegar hún var að snúa við en síðan fór askjan að rísa aftur og hún hefur verið að rísa síðan 2015. Og því hafa fylgt skjálftar upp undir fimm stig en núna síðustu árin tvö hefur þetta heldur verið að færast í vöxt.“
Þessi aukna virkni endurspegli væntanlega að askjan rísi nú heldur hraðar en áður.
Bendir þessi aukna virkni þá til þess að við megum vænta eldgoss á þessum slóðum á næstu árum?
„Það er ekki ólíklegt,“ svarar jarðeðlisfræðingurinn en tekur fram að framvinda jarðhræringa í Bárðarbungu gangi oft hægar en það sem landsmenn hafa fengið að venjast á Reykjanesskaganum.
„Það er kvikustreymi að stöðinni núna og hún er að safna sér efni í næsta gos. Hvenær það verður, það er erfiðara að segja til um það.“
Erfitt er að leggja mat á það, að sögn Páls, hversu mikil kvika hefur nú safnast upp í öskju eldstöðvarinnar þar sem hún liggur undir jökli. „En það er sennilega komið eitthvað talsvert áleiðis.“
Prófessorinn bendir á að jarðsigið sem fylgdi gosinu í Holuhrauni 2014 hafi numið um 65 metrum, sem er margfalt meira en það sem sést hefur á Reykjanesskaga enda landsig þar frekar mælt í sentimetrum.
„Og hún er komin einhvern part af því til baka, en það er ekki alveg ljóst hversu langt,“ segir hann og bætir við að lokum:
„Bárðarbunga er stórvirk. Það eru aðrar stærðargráður á gosum þar.“