Rauðvín, lakkrís og reykt kjöt virðast vera þær fæðutegundir sem geta aukið hvað mest á mígreniköst Íslendinga.
Niðurstöðurnar eru ólíkar niðurstöðum í sambærilegum erlendum rannsóknum að því leyti að lakkrís hefur aldrei komið fram áður sem mígrenikveikja. Eins hefur reykt kjöt heldur ekki nefnt jafn oft.
Þetta kemur fram í grein Læknablaðsins, sem ber yfirskriftina Fæða sem mígrenikveikja, þar sem markmiðið var „að skoða hversu hátt hlutfall einstaklinga með mígreni á Íslandi tengir einkenni sín við neyslu ákveðinna fæðutegunda og hvaða fæðutegundir auka helst líkurnar á mígrenikasti“.
Spurningalisti var lagður fyrir tvo hópa Íslendinga með mígreni, alls 503 einstaklingar. Fyrri hópurinn var skráður í Facebook-hópinn Mígreni. Í seinni hópnum voru einstaklingar sem eru í meðferð við mígreni hjá taugalækni.
Spurningalistinn var rafrænn og voru spurningar byggðar á erlendum rannsóknum. Ekki hefur áður verið rannsakað hvaða fæðukveikjur að mígreni eru algengastar hér á landi.
Samkvæmt erlendum rannsóknum eru áfengi, sítrusávextir, mygluostar, súkkulaði, mjólkurvörur, unnar kjötvörur, gervisætuefni, nítrít og nítröt, týramín, koffín og svengd og/eða föstur algengustu kveikjur mígrenis.
Spurningin „Telur þú að ákveðnar fæðutegundir geti aukið líkur á mígrenikasti eða framkallað mígrenikast hjá þér?“ var lögð fyrir þátttakendur. Svöruðu þeir játandi opnaðist 52 atriða listi yfir fæðutegundir.
76% þátttakenda sögðu mat geta framkallað eða aukið líkur á mígrenikasti hjá sér.
Samkvæmt greininni er ljóst að Íslendingar með mígreni greina svipaðar fæðutengdar kveikjur og erlendar rannsóknir hafa sýnt.
Áhugavert er þó að fyrri rannsóknir hafa ekki sýnt lakkrís sem kveikju og að reykt kjöt virðist algengari kveikja hér á landi en erlendis.
40% þátttakenda sögðu lakkrís geta framkallað eða aukið líkurnar á mígrenikasti hjá sér, 32% sögðu reykt kjöt og 27% sögðu súkkulaði.
Rauðvín og svengd voru algengustu kveikjurnar, þar sem 60% og 59% þátttakenda töldu kveikjurnar oft eða alltaf geta aukið líkur á eða framkallað mígrenikast.
Þátttakendum var gefinn möguleiki á að skrá í textareit fæðutegundir sem ekki komu fram í spurningalistanum. Það gerðu alls 140 einstaklingar en þar var algengast að nefna hlaup, sælgæti, kakó, fisk og glúten.