Kærastinn fær ekki skipaðan réttargæslumann

Árásin átti sér stað í Skúlagötu í Reykjavík á Menningarnótt.
Árásin átti sér stað í Skúlagötu í Reykjavík á Menningarnótt.

Lands­rétt­ur hef­ur staðfest niður­stöðu héraðsdóms og hafnað beiðni um skip­un rétt­ar­gæslu­manns fyr­ir einn þeirra sem voru í bif­reið með Bryn­dísi Klöru Birg­is­dótt­ur á menn­ing­arnótt, rétt áður en hún var myrt.

Fimm ung­menni voru í bif­reiðinni þegar sex­tán ára pilt­ur, sem ákærður hef­ur verið fyr­ir mann­dráp, braut hliðarrúðu bif­reiðar­inn­ar og veitt­ist að þrem­ur þeirra með hnífi. Bryn­dís var ein þeirra sem hann veitt­ist að, en í sam­ræmi við lög eru hin tvö ung­menn­in með rétt­ar­gæslu­mann og settu fram einka­rétt­ar­kröfu í mál­inu vegna þess miska eða skaða sem þau urðu fyr­ir.

Fjórða ung­mennið, ung­ur maður sem var kær­asti Bryn­dís­ar, óskaði eft­ir því að fá skipaðan rétt­ar­gæslu­mann og að setja fram einka­rétt­ar­kröfu í mál­inu. Vísað var til þess að þó hann hefði ekki orðið fyr­ir hnífa­árás­inni hefði hann upp­lifað mikið áfall vegna máls­ins og verið í meðferð hjá sál­fræðingi síðan. Þá er bróðir hans einnig einn brotaþola í mál­inu.

Héraðsdóm­ur komst hins veg­ar að þeirri niður­stöðu að verknaðarlýs­ing í mál­inu beri ekki með sér að hann sé brotaþoli í mál­inu, þótt hann hafi tengst at­b­urðarás­inni. Taldi dóm­ur að árás­in hefði verið til þess fall­in að valda hon­um and­leg­um miska, en að hann teld­ist ekki brotaþoli í skiln­ingi laga og því væri einka­rétt­ar­krafa hans ekki höfð uppi í mál­inu og þar af leiðandi hafnað kröfu hans um að skipaður yrði rétt­ar­gæslumaður.

Lands­rétt­ur staðfesti niður­stöðu héraðsdóms um að ekki væri talið að árás­in hefði beinst að mann­in­um og því ætti hann ekki rétt á rétt­ar­gæslu­manni. Hins veg­ar ætti hann rétt á að hafa uppi einka­rétt­ar­kröfu í mál­inu og að ekki væru ann­mark­ar á kröf­unni. Var héraðsdómi því gert að taka kröf­una til efn­is­meðferðar.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert