„Málið er einfalt í raun,“ þannig hljómuðu varnarorð Karls Georgs Sigurbjörnssonar, sem er verjandi Snorra Guðmundssonar, kenndan við rafrettusjoppuna Póló. Snorri er ásamt Sverri Þór Gunnarssyni ákærður fyrir tollalagabrot með því að smygla inn sígarettum og vindlingum til landsins á árunum 2015-2018.
Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Einfaldleiki málsins snýr, að mati Karls og Sigurðar G. Guðjónssonar, lögmanns Sverris, að því að ábyrgð í málinu falli á herðar tollamiðlarans Thorship, sem hafði veg og vanda af því að gera tollskýrslur þegar tóbakið kom til landsins. Í tollskýrslum var tóbakið ýmist tilgreint sem prótein eða pappír. Er þeim Snorra og Sverri í gegnum félagið, Áfengi og tóbak ehf, fyrir vikið gert að hafa svikist um greiðslu tóbaksgjalda.
Í heild eru verslunareigendurnir sagðir hafa smyglað 120.075 kartonum af sígarettum, eða 1.200.750 sígarettupökkum og 5.400 kartonum af reyktóbaki til landsins.
Reiknast lögreglumanni sem kom að rannsókn málsins að greiðslur tóbaksgjalda sem svikist var um hafi numið 740 milljónum króna. Gerir Ásmunda Björg Baldursdóttir, saksóknari hjá Héraðssaksóknara, þá kröfu að þeim Snorra og Sverri verði gert að greiða 1,4 milljarða til ríkissjóðs vegna meintra undanskota sinna.
Þá bendir hún á að refsiramminn sé allt að sex ára fangelsi en tekur þó fram að það gæti komið til mildunar að báðir menn hafi hreina sakaskrá.
Báðir verjendur telja meint tollalagabrot umbjóðenda sinna fyrnd að stórum hluta. Fyrningarfrestur tollalagabrota sé fimm ár og að sá fyrningarfrestur hafi ekki verið rofinn fyrr en árið 2022 þegar sakborningarnir fengu stöðu sakbornings eða um fjórum árum eftir að síðustu brotin voru framin. Þannig eigi í raun einungis tvö þeirra meintu smyglmála sem um ræðir að hafa komið til kasta dómsins, en ekki níu eins og réttarhöldin snúast um.
Þessu mótmælir Ásmunda, sem segir mál af þessu tagi ekki fyrnast fyrr en eftir 10 ár.
Í ljósi umfangs brotanna gerði héraðssaksóknari kröfu á að eignir Sverris og Snorra yrðu kyrrsettar. Var það samþykkt í héraðsdómi.
Hjá Sverri er um að ræða stórt einbýlishús í Garðabæ og lítið iðnaðarhúsnæði í Reykjavík. Þá er farið fram á að upphæð sem nemur um 55 milljónum króna verði gerð upptæk, en það eru fjármunir sem fundust á reikningum hans, á heimili og í bankahólfi. Stór hluti þess er þó 40 milljónir sem lagðar voru að veði fyrir 17 Rolex úr sem hann fékk afhent að nýju eftir að saksóknari hafði haldlagt þau við húsleitina.
Í tilfelli Snorra er farið fram á upptöku á 50% eignarhluta hans í sumarhúsi í Bláskógabyggð, atvinnuhúsnæði í Stykkishólmi og stóru einbýlishúsi í Garðabæ. Þá hefur héraðssaksóknari lagt hald á 133,6 milljónir í lausafé sem var í hans eigu, en þar af eru 12 milljónir sem lagðar voru að veði fyrir sjö úrum sem haldlögð voru af héraðssaksóknara á heimili hans.