Minntust fórnarlamba hópmorðs

Mannréttindagjörningurinn fyrir framan Alþingishúsið var í hádeginu í dag.
Mannréttindagjörningurinn fyrir framan Alþingishúsið var í hádeginu í dag. Ljósmynd/Aðsend

Ungliðahreyfing Íslandsdeildar Amnesty International var með mannréttindagjörning fyrir utan Alþingishúsið í hádeginu en í dag er alþjóðadagur til minningar um fórnarlömb hópmorðs.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsdeild Amnesty International.

Voru á jörðina lagðir fjórtán líkpokar með vísun í þá sem látist hafa á Gasasvæðinu í stríði Ísraels og Hamas.

Á hvern poka var svo settur útprentaður bókstafur og saman mynduðu þeir setninguna „Þetta er hópmorð.“

9. desember er alþjóðadagur til minningar um fórnarlömb hópmorðs.
9. desember er alþjóðadagur til minningar um fórnarlömb hópmorðs. Ljósmynd/Aðsend

Hópurinn tendraði einnig kertaljós til minningar um þá sem látist hafa í átökunum og kemur fram í tilkynningunni að deildir Amnesty International víða um heim voru með gjörning í sama tilgangi í tilefni dagsins.

Lásu upp brot úr skýrslu Amnesty

Þá lásu ungliðar úr ungliðahreyfingu Íslandsdeildarinnar upp brot úr nýútkominni skýrslu Amnesty International þar sem fram kem­ur að Amnesty telji nægilegan grund­völl­ til að álykta að Ísra­el hafi framið og haldi áfram að fremja hóp­morð á Palestínu­bú­um á Gasa­svæðinu.

Ungliðar úr ungliðahreyfingu Íslandsdeildarinnar lásu upp brot úr nýútkominni skýrslu …
Ungliðar úr ungliðahreyfingu Íslandsdeildarinnar lásu upp brot úr nýútkominni skýrslu Amnesty International. Ljósmynd/Aðsend

„Þar kom meðal annars fram að 63% allra bygginga á svæðinu hafa verið eyðilagðar og að um 60 % þeirra sem hafa látist eru konur, börn og eldri borgarar.

Samkvæmt skýrslu Amnesty International er ljóst að um ásetning um hópmorð er að ræða þegar horft er á hern­að­ar­lega sókn Ísraels og þær afleið­ingar sem stefnur og aðgerðir Ísraels hafa haft í víðu samhengi,“ segir í tilkynningunni.

Amnesty kallar eftir öflugum og langvarandi aðgerðum frá ríkjum heimsins.
Amnesty kallar eftir öflugum og langvarandi aðgerðum frá ríkjum heimsins. Ljósmynd/Aðsend

Kalla eftir langvarandi aðgerðum

Segir þar enn fremur að Amnesty kalli eftir því að ríki heims grípi til öflugra og langvarandi aðgerða, sama hversu óþægilegt það kunni að vera fyrir bandamenn Ísraels og einnig að ríki heims beiti öllum löglegum leiðum til að draga gerendur til ábyrgðar.

„Við köllum á leiðtoga þessa heims og ekki síður hér á Íslandi að nota rétt orð yfir það sem á sér stað. Þetta er hópmorð!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert