Nema landris umhverfis öflugustu eldstöð landsins

Sigketill í Bárðarbungu. Mynd úr safni.
Sigketill í Bárðarbungu. Mynd úr safni. mbl.is/RAX

Landris og skjálftar gefa til kynna virkt innflæði kviku í eldstöðina Bárðarbungu.

Skýrt merki um landris hefur verið í Bárðarbungu síðan Holuhraunsgosinu lauk í febrúar 2015. Eldgosið hafði þá staðið yfir í hálft ár.

Fyrir tveimur árum dró aðeins úr hraða landrissins, sem hefur svo aðeins tekið að aukast aftur. Breytingarnar hafa þó ekki verið stórvægilegar en landrisið hefur verið viðvarandi í tíu ár.

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga hjá Veðurstofu Íslands.

Fjórir stórir skjálftar

Skjálfti af stærðinni 5,1 reið yfir Bárðarbungu aðfaranótt sunnudags. Þetta er fjórði skjálftinn um eða yfir fimm að stærð sem hefur mælsti í eldstöðinni á árinu.

„Það hefur verið vinna við að meta hvað af þessu [landrisinu] er vegna virks innflæðis kviku og hvað er vegna þess að jarðskorpan er bara að jafna sig,“ segir Benedikt.

„En það er alveg klárt að það hefur verið kvikuinnflæði frá því að gosinu lauk. Það er líka það sem skjálftarnir eru að segja okkur. Við fórum að sjá þessa skjálfta fljótlega eftir að þessu gosi lauk.“

Frá eldgosinu í Holuhrauni árið 2014.
Frá eldgosinu í Holuhrauni árið 2014. mbl.is/RAX

Landris umhverfis öskjuna

Eftir síðasta eldgos í Bárðarbungu seig askjan í eldstöðinni niður um 65-70 metra. Benedikt segir Veðurstofuna ekki með mælingar sem sýni hvort askjan sjálf sé farin að rísa. 

Mælar Veðurstofunnar sýni aftur á móti landris umhverfis öskjuna sem gefi til kynna þrýsting undir yfirborðinu.

„Þetta er aðeins flóknara ferli í Bárðarbungu en til dæmis í Svartsengi.“

Safnar sér efni í næsta gos

„Bárðarbunga er senni­lega okk­ar öfl­ug­asta eld­stöð og hún hef­ur sýnt al­veg frá 1974 ákveðna virkni sem seg­ir okk­ur ákveðna sögu,“ sagði Páll Einarsson í samtali við mbl.is í gær.

Hluti af þeirri sögu er eld­gosið í Gjálp 1996 og svo eldgosið í Holuhrauni, sem stóð yfir frá ág­úst 2014 til janú­ar 2015. Páll seg­ir skjálft­ana tengj­ast hreyf­ingu í öskju und­ir jökl­in­um.

„Það er kviku­streymi að stöðinni núna og hún er að safna sér efni í næsta gos. Hvenær það verður, það er erfiðara að segja til um það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert