„Þetta er risastórt tollalagabrot“

Mennirnir eru sakaðir um að hafa flutt inn 120.075 karton …
Mennirnir eru sakaðir um að hafa flutt inn 120.075 karton af sígarettum og 5.400 karton af reyktókbaki án þess að greiða af þeim gjöld, en vörurnar voru meðal annars flokkaðar sem pappír og prótín. Nema undanskotin vegna þessa samtals um 740 milljónum. mbl.is/Golli

Sverrir Þór Gunnarssson og Snorri Guðmundsson, sem ákærðir eru fyrir að smygla inn sígarettum og vindlingum í níu sendingum neituðu að tjá sig um sakarefnið þegar aðalmeðferð málsins hófst nú í morgun.

Fyr­ir­tækið sem flutti tób­aksvör­urn­ar til lands­ins heit­ir Áfengi og tób­ak ehf. Það er í eigu ann­ars ákærðu, Snorra Guðmunds­son­ar, sem oft er kennd­ur við rafrettu­versl­un­ina Póló. Auk hans er Sverr­ir Þór Gunn­ars­son, sem kennd­ur hef­ur verið við rafrettu­versl­un­ina Drek­ann, í for­svari fyr­ir fé­lagið, en hann hafði stofnað Áfengi og tób­ak (sem þá hét Tób­aks­fé­lag Íslands ehf.) í gegn­um fé­lag sitt Urriðafoss ehf., en það fé­lag rek­ur í dag Drek­ann.

Prótein og pappír 

Eru þeir sakaðir um að hafa ranglega tilgreint vöruflokka í farmskrám þegar þeir fluttu tóbakið til landsins í gegnum félagið Áfengi og tóbak ehf. Þannig hafi tóbakið ýmist verið tilgreint sem prótein eða pappír í stað þess að það væri tollað sem sígarettur eða tóbak líkt og lög gera ráð fyrir.

Um er að ræða í heild­ina 120.075 kart­on af síga­rett­um, eða 1.200.750 síga­rettupakka og 5.400 kart­on af reyktób­aki.

Í heild eru undanskotin sögð 740 milljónir króna, samkvæmt útreikningum rannsóknarlögreglumanns sem kom fyrir dóminn. Segir hann að meðal annars hafi meint peningaþvætti verið til skoðunar en ákveðið var að einblína á tollalagaabrotin. 

„Þetta er risastórt tollalagabrot,“ sagði lögreglumaðurinn. 

Búið að dæma lykilvitni í málinu

Í aðalmeðferð málsins í Héraðsdómi Reykjaness sem hófst í morgun var rætt við starfsmenn innflutningsfyrirtækisins Thorship sem sá að gera tollskýrslur í kerfum fyrirtækisins.

Hafði það milligöngu að innflutningi á tóbaks- og nikótínvörunum. Voru vörurnar tollafgreiddar þar og skráðar með áðurgreindu hætti.

Saksóknari setti mest púður í að ræða við lykilvitni í málinu. Var hann einnig ákærður fyrir sinn hlut í málinu. Ákveðið var að rétta sérstaklega yfir vitninu og var maðurinn dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir sinn þátt í málinu fyrir um mánuði síðan.

Vitnið er karlmaður a fimmtugsaldri sem starfaði hjá Thorship á árunum 2012-2018. Var hann sá sölumaður hjá Thorship sem hafði verið í mestum samskiptum við þá Snorra og Sverri. Eftir að málið kom upp var honum sagt upp hjá fyrirtækinu.

Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.
Málið er rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness. mbl.is/Hákon

Afgreiddu vörurnar eins og síðast 

Athygli vekur að aðrir starfsmenn en sölumaðurinn sáu um að tollafgreiða vörurnar og að gera tollskýrslur. Höfðu starfsmennirnir gjarnan þann háttinn á að afgreiða vörurnar með sama hætti og áður hafði verið gert í tölvukerfi fyrirtækisins. Saksóknari benti á að vörulýsingum hefði verið breytt handvirkt úr sígarettum og tóbaki í sígarettupappír og filter. Við það féllu vörurnar í annan tollflokk.

Enginn hjá fyrirtækinu greip þetta og var ekki gerð athugasemd við þetta fyrr en tollverðir hjá tollstjóra opnuðu sendingu árið 2018, þá níundu sem hafði komið til landsins undir öðrum tollnúmerum en því er tilgreinir tóbakið.

Við þeim blasti 4 tonna gámur sem var fullur af sígarettum og er innihald hans nú í enn í haldi hjá tollinum.

Skilur ekkert í rangri tollmerkingu 

Lykilvitnið benti á ábyrgð þeirra sem sjá um að tolla vöruna. Sagði hann að hlutirnir eigi að vera tollaðir eftir því sem segir í pappírum en ekki í vörulýsingu. Gerði hann að því skóna að mestu máli skipti að tolla hlutina eins og reikningur segir til um. Að sögn vitnisins sendi hann reikningana alltaf frá sér, en sendingarnar voru engu að síður ranglega tollflokkaðir.

Sagði hann að í fyrstu hafi verið um að ræða rafsígarettusendingu og að hafi hún verið flokkuð sem prótein sökum þess að ekki hafi verið til tollflokkur fyrir nikótínvökva. Skýri það að hluta hvers vegna sú merking var notuð hjá Thorship. 

Boðið á bardaga með Gunnari Nelson 

Fram kemur að lykilvitnið hafði þrívegis farið í boðsferð með Áfengi og tóbaki, meðal annars til London á bardaga með Gunnari Nelson en einnig til Las Vegas.

Málflutningur í málinu fer fram nú síðdegis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert