Blöskraði margt sem var sett fram

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins.
Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins. mbl.is/Hallur Már

Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Hornsteins ehf., segir það vonbrigði að íbúar í Ölfusi hafi hafnað því að mölunarverksmiðja Heidelberg rísi í Þorlákshöfn. Hann segir niðurstöðu atkvæðagreiðslu í gærkvöldi þó ekki hafa komið sér á óvart.

„Miðað við umræðuna sem hafði skapast í kringum verkefnið þá áttum við alveg eins von á því að þetta gæti farið svona,“ segir Þorsteinn aðspurður en Heidelberg Cement á 53% í Hornsteini ehf.

„Heit og neikvæð umræða“

„Það hefur skapast mjög heit og neikvæð umræða um verkefnið í heild og ég viðurkenni að mér blöskraði margt sem þarna var sett fram sem átti lítið skylt við veruleika verkefnisins. En það er alltaf hættan þegar komið er út í pólitíska umræðu um atvinnuuppbyggingu sem þessa,“ segir hann einnig og nefnir sem dæmi umræðu um álverið í Straumsvík á sínum tíma og Coda Terminal í Hafnarfirði.

„Það er kannski ekki alltaf haldið fast í staðreyndirnar í umræðunni en það er erfitt að ráða við slíkt,“ bætir hann við og kveðst hafa skynjað ákveðna þreytu í samfélaginu vegna umræðunnar um verkefnið, sem hefði staðið lengi yfir.

Áætlað útlit mölunarverksmiðju Heidelberg og hafnar.
Áætlað útlit mölunarverksmiðju Heidelberg og hafnar. Tölvugerð mynd úr gögnum á vefsíðu Ölfuss

„Þetta eru vissulega vonbrigði,” segir hann jafnframt um niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar en bendir þó á að verkefnið sé mjög spennandi, það geti skilað mjög miklum virðisauka til landsins og hafi að geyma fjölmörg og góð tækifæri.

Átti ekki við rök að styðjast 

Fyrirtækið First Water setti út á fyrirhugaða starfsemi verksmiðjunnar í Þorlákshöfn og taldi hana ekki eiga heima í nágrenni við matvælaframleiðslu á borð við laxeldi. Þorsteinn telur umræðuna hafa haft sitt að segja í atkvæðagreiðslunni.

„Það er sérstakt þegar atvinnurekendur eru að stilla sér upp með þessum hætti. Þessar fullyrðingar um áhrif sem áttu ekki við nein rök að styðjast, en það er eins og það er. Ég vona, samfélaginu í Þorlákshöfn vegna, að starfsemi First Water verði farsæl og góð í sveitarfélaginu,“ segir hann.  

Hefja leit að öðrum stað 

„Mín persónulega skoðun er áfram óbreytt sú að þetta verkefni hefði passað mjög vel inn í þá uppbyggingu sem er í gangi í Þorlákshöfn. Það verður missir fyrir samfélagið af því en íbúar hafa talað skýrri röddu og við einfaldlega snúum okkur að næsta verkefni sem er að finna þá verkefninu annan stað,” heldur hann áfram.

Þorlákshöfn.
Þorlákshöfn. mbl.is/Sigurður Bogi

Spurður hvort Heidelberg sé þegar byrjuð að huga að nýrri staðsetningu segir Þorsteinn ótímabært að sjá sig um það. Þau hafi átt gott samstarf við sveitarfélagið Ölfus og að engar aðrar staðsetningar hafi verið í kortunum þrátt fyrir að þau hafi búist við að íbúakosningin gæti farið eins og hún fór.

Helst kveðst Þorsteinn vilja sjá verksmiðjuna rísa hér á landi enda byggi verkefnið á sérstöðu Íslands. Hér sé mikið af móbergi sem sé óalgengt jarðefni í norðanverðri Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert