Sigurður Ægisson prestur á Siglufirði hefur krufið til mergjar hvaðan þekktasta orðatiltæki heims, ókei, er upprunnið. Í nýrri bók sinni Ókei fer hann yfir fimmtíu kenningar um hvernig þessi skammstöfun samtímans varð til.
Í bókinni fer hann vítt og breitt um heiminn og leitar fanga allt frá Evrópu til Vestur-Afríku. Forsetar Bandaríkjanna fyrr á öldum koma mikið við sögu enda rekur Sigurður sennilegustu kenninguna til Andrew Jackson sem varð sjöundi forseti Bandaríkjanna. Hann lærði orðið af Choctaw indíánum. En hvaðan tóku þeir orðið upp? Tvær skýringar eru líklegastar. Að þeir hafi lært orðið frá Frökkum eða afrískum þrælum sem Choctaw-ættbálkurinn hélt.
Sigurður er gestur Dagmála Morgunblaðsins í dag og ræðir þar nýjustu bók sína um þessa skammstöfun sem hefur orðið að orði í nær öllum tungumálum heimsins. Ókei var fyrsta orðið sem sagt var á tunglinu, bendir Sigurður á þegar rætt er um útbreiðslu orðsins og tilurð þess.
Fyrstu heimildir um notkun þess á Íslandi segir hann að finna megi árið 1935 og fljótlega eftir það verður þess vart víða. Nefnir Sigurður sem dæmi ljóð eftir Stein Steinarr, Hudson Bay, sem birt var í Heimilisritinu 1. júní 1948.
Í viðtalsbrotinu sem fylgir með fréttinni ræðir Sigurður fyrst um Ókei í íslensku máli en í síðari hlutanum víkur hann að tengingu sjöunda forseta Bandaríkjanna við orðatiltækið.
Fleiri hluti ber á góma í viðtalinu við Sigurð. Hann er farinn að vinna að næstu bók sem er um útbreiddasta þjóðtrúardýr heims, einhyrninginn. Þar fer hann yfir þann misskilning sem virðist hafa verið á ferðinni öldum saman um þetta dularfulla dýr. Setur Sigurður fram líklegar skýringar í viðtalinu en einhyrningurinn rataði til að mynda inn í Guðbrandsbiblíu.
Sigurður ræðir trúarlíf og stöðu kristninnar sem hann telur standa styrkum fótum.
Þátturinn í heild sinni er opinn áskrifendum Morgunblaðsins.